Lítið um útstrikanir í Múlaþingi og Vopnafirði

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, fékk flestar útstrikanir í Múlaþingi í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Á Vopnafirði var oftast strikað yfir nafn Bjarts Aðalbjörnssonar.

Þetta kemur fram í skýrslum sveitarfélaganna til landskjörstjórnar. Skýrsla frá Fjarðabyggð hefur að minnsta kosti ekki enn verið birt á vefi landskjörstjórnar.

Jónína fékk 11 útstrikanir eða 1,9% kjósenda B-lista í Múlaþingi. Sjö sinnum var strikað yfir nafn Vilhjálms Jónssonar, annars manns listans. Mest var um útstrikanir hjá Framsókn, 29 eða tæp 5% kjósenda strikuðu yfir nafn á listanum. Aðeins einu sinni var strikað yfir Björgu Eyþórsdóttir, þriðja bæjarfulltrúann.

Hjá Sjálfstæðisflokknum var 21 útstrikun, flestar á oddvitann Berglindi Hörpu Svavarsdóttur eða níu talsins. Hinir bæjarfulltrúarnir tveir, Ívar Karl Hafliðason og Guðrún Lára Guðrúnardóttur, fengu þrjár hvort.

Aðeins voru tvær útstrikanir hjá Austurlistanum. Hildur Þórisdóttir, í fyrsta sæti og Ásdís Hafrún Benediktsdóttir, í fjórða sæti, skiptu þeim með sér. Þrír kjósendur strikuðu yfir nafn Þrastar Jónssonar, efsta manns Miðflokksins. Helgi Hlynur Ásgrímsson fékk tvær útstrikanir hjá Vinstrihreyfingunni - grænum framboðum.

Bjartur Aðalbjörnsson, sem fór fyrir Vopnafjarðarlistanum, fékk tíu útstrikanir eða 5,4% og Björn Heiðar Sigurbjörnsson þrjár. Hjá Framsókn fékk Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir tvær og Sigurður Grétar Sigurðsson eina.

Langt var frá því að útstrikanir hefðu nokkur áhrif. Hve mikið veltur á fjölda kjörinna fulltrúa. Ekki var strikað yfir nöfn annarra fulltrúa sem hlutu kjör sem aðalfulltrúar í sveitarstjórnirnar.

Austurfrétt hefur frá kosningum óskað eftir upplýsingum um útstrikanir hjá austfirskum yfirvöldum en án svara. Það gildir einnig um Fjarðabyggð en skýrsla þaðan hefur, eins og fyrr segir, ekki enn verið birt hjá landskjörstjórn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.