Skip to main content

Lítils háttar hreyfingar utan Búðarhryggs en allt með kyrrum kjörum á Eskifirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. nóv 2022 11:24Uppfært 25. nóv 2022 11:29

Grannt er fylgst með skriðuhættu á Seyðis- og Eskifirði af hálfu sérfræðinga Veðurstofu Íslands en lítils háttar hreyfingar mældust utan Búðarhryggs á Seyðisfirði í gær.

Þetta kemur fram í nýjum stöðupistli á bloggvef Veðurstofunnar en óvissustigi var lýst yfir í fyrradag. Mæld grunnvatnsstaða á báðum ofangreindum stöðum hefur verið há undanfarið og segir reyndar að líklegt sé að staðan sé há alls staðar á Austurlandinu eftir mikla úrkomu í langan tíma.

Í nóvembermánuði  hafa hreyfingar almennt ekki verið miklar, mest um fimm sentimetra í Búðarhrygg en hreyfingar utan hryggsins hafa að mestu verið litlar þó hreyfingar hafi orðið vart í gærdag. Óverulegar hreyfingar hafa mælst í hlíðum Eskifjarðar síðustu vikur.

Spár gera ráð fyrir lítilli úrkomu austanlands í dag og til morguns þegar úrkomuskil ganga yfir fjórðunginn og rigna mun fram á sunnudag. Útlit er fyrir að þurrt verði eftir helgina.