Skip to main content

Ljót aðkoma skipafarþega til Seyðisfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. júl 2022 11:24Uppfært 19. júl 2022 16:18

„Ég ætla nú ekki að segja að þetta hafi ekki verið miklu verra hér í fortíðinni en ljótt er það samt og þetta það fyrsta sem tugþúsundir ferju- og skipafarþega sjá þegar komið er inn fjörðinn,“ segir Þórhallur Pálsson, arkitekt.

Þórhallur hefur um tíma verið hugsi yfir þeirri sjón sem mætir skipafarþegum á leið til Seyðisfjarðar en töluvert mikið rusl finnst meðfram ströndinni þegar komið er inn að bænum. Gamlir bílar, ryðgað járn, plastbalar og fúin bretti er meðal þess að sjá má af skipsfjöl á leið inn fjörðinn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

„Ég veit af reynslu að það er stórkostlegt að nálgast landið okkar af sjó. Tignarleg fjöllin vekja mikil hughrif og ekki síst þegar sólin leikur um tindana á sumrin. Djúpur fjörðurinn ekki síður heillandi en þegar nær dregur bænum er það þetta rusl og drasl um allt sem fólk tekur eftir. Sem mér finnst synd hin mesta því Seyðisfjarðarbær sjálfur er mjög fallegur með öll sín gömlu hús og á betra skilið.“

Þórhallur vonar að menn annaðhvort á Seyðisfirði eða í sveitarfélaginu Múlaþingi geri skurk í að koma þessu til betri vegar nú þegar vart líður sólarhringur á milli heimsókna stórra skemmtiferðaskipa til bæjarins. Rusl á víðavangi eigi ekkert skylt við hugmyndir fólks um hreint og fallegt Ísland í norðri.