Lóðasamningar orkugarðs á lokametrunum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2022 09:50 • Uppfært 30. ágú 2022 09:50
Vinnustofa um uppbyggingu Orkugarðs Austurlands á Reyðarfirði var haldin þar í síðustu viku. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir samninga um lóð undir starfsemina langt komna.
Orkugarður Austurlands er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi. Í verkefninu er lögð sérstök áhersla á nýsköpun, hátækni, grænar lausnir og sjálfbærni.
Á vinnustofunni komu ýmsir sérfræðingar í orkuskiptum og umhverfisvænum iðnaði, meðal annars frá Copenhagen Infrastructure Partners (CIP), Landsvirkjun og Rotterdamhöfn. Þá kynntu aðilar sem koma að uppbyggingu orkugarðsins, frá Síldarvinnslunni, Löxum og Atmonia, aðgerðir sínar í orkuskiptum.
Þá sátu stofuna fulltrúar sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Fljótsdalshrepps auk hluta þingmanna kjördæmisins, fulltrúa Íslandsstofu og atvinnulífi á Austurlandi. Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að vinnustofan hafi að þeirra mati gengið mjög farsællega.
„Sérstök áhersla var lögð á að ræða þau tækifæri sem felast á Austurlandi í tengslum við orkuskipti og græna framtíð svæðisins. Á svæðinu eru sterkir innviðir og þekking á stórum orkuframkvæmdum og var vinnustofan grundvallarþáttur í grænni framtíð Austurlands þar sem ólíkar raddir gátu rætt næstu skref og verkefnið í heild sinni,” að því er segir þar.
„Verkefnið er á heilmikilli ferð og við vinnum að því öllum árum áfram. Umræðan á vinnustofunni var mjög hreinskiptin og góð. Þar kynntu samstarfsaðilarnir sig og hvaða tækifæri þeir sjá,“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar við Austurfrétt, að lokinni vinnustofunni.
„Það var gott að taka stöðuna. Með okkur sátu í dag fjórir þingmenn kjördæmisins. Ég hefði gjarnan viljað sjá þá alla því burtséð frá okkar verkefni þá er gríðarlega mikilvægt að Alþingi fari að ljúka lagasetningu um vindorku.
Það er óumdeilt að orkuskipti eru að koma og pressan eykst meðal annars út af ástandinu í Evrópu og stríðinu í Úkraínu. Þau eru líka stór liður í að við stöndum við þær alþjóðaskuldbindingar sem við höfum undirgengist. Þess vegna þurfum við að sýna hvað við erum að fara að gera,“ sagði Jón Björn.
Fjarðabyggð leggur til land undir orkugarðana og hefur þeim verið valinn staður í norðanverðum Reyðarfirði, utan við álver Alcoa Fjarðaáls.
„Við höfum verið í viðræðum um lóðamál síðan í vor. Það eru komin drög að lóðaleigusamningi sem eru nú í yfirlestri hjá lögmönnum beggja aðila. Hann fer síðan til umfjöllunar í bæjarstjórn og undirritunar. Við gerum því ráð fyrir að sjá til lands þar á næstu vikum,“ segir Jón Björn. „Síðan eru önnur mál eins og orkuöflun á vegum CIP uppi í Fljótsdal.“
Hann segir tímalínu framkvæmda smá saman vera taka á sig skýrari mynd. Á vinnustofunni kom fram í máli fulltrúa CIP að nú standi yfir hönnun og undirbúningsvinna fyrir bæði vindmyllugarðinn og orkugarðinn. Í tilfelli vindmyllugarðsins taki það 3-5 ár, síðan taki 1-2 ár að reisa hann. Hann á að vera tilbúinn árið 2028 og geta starfað í 30-50 ár.
Varðandi orkugarðinn sjálfan eru framkvæmdir við hann fyrirhugaðar árið 2025 og hann verði tilbúinn 2028. Áætlaður starfstími hans er 30-60 ár. Síðan taki 1-2 ár að taka búnað hvors niður og ganga frá svæðum. „Það vantar enn lagaumhverfið en ef sú vinna sem önnur þróast eðlilega þá teljum við okkur vera að horfa á gangsetningu árið 2028,“ sagði Jón Björn að lokum.
Frá vinnustofunni. Mynd: Fjarðabyggð