Orkumálinn 2024

„Lystigarðurinn stendur ekki lengur undir nafni“

„Garðurinn hefur ávallt verið vinsæll meðal bæjarbúa og þar farið fram afmæli og jafnvel brúðkaupsveislur en nú er bara svo komið að hann stendur alls ekki undir nafni sem lystigarður á nokkurn hátt,“ segir Helga Magnea Steinsson, sem situr í lystigarðsnefnd kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað.

Óánægja er meðal bæjarbúa í Neskaupstað vegna þess hve bæjarstjórn Fjarðabyggðar sýnir því lítinn áhuga að viðhalda eða þróa lystigarðinn í bænum en það voru einmitt kvenfélagskonur á sínum tíma sem fengu reitinn til afnota og hafa linnulítið síðan  lagt fram vinnu og tíma til að halda garðinum aðlaðandi fyrir íbúa.

„Við höfum undanfarið verið með undirskriftasöfnun vegna þessa og þar kemur vilji bæjarbúa mjög sterkt fram og þann lista ætlum við að afhenda formlega líklega síðar í þessari viku,“ segir Helga. „Það má segja að þetta sé í annað skipti á tíu árum sem lystigarðurinn stendur ekki undir nafni sökum þess að aðgengi bæði að honum og í honum er lítið sem ekkert. Aldrað fólk eða fólk í hjólastólum kemst einfaldlega ekki í garðinn. Vandamálin eru fjölmörg. Stígar eru ónýtir og illfærir, lýsingu þarf að bæta mikið og svo má ekki gleyma brýnni viðgerð á gosbrunninum í garðinum.“

Helga bendir á að lystigarðurinn eigi 90 ára afmæli í ágúst 2024 og vonast kvenfélagið eftir að bæjaryfirvöld taki nú af skarið fyrir þann tíma og geri lystigarðinn aftur að vinsælum miðpunkti í Neskaupstað.

Lystigarðurinn í Neskaupstað má muna sinn fífil fegurri og viðhald og endurbætur litlar sem engar í garðinum undanfarin ár. Ekki er seinna vænna að bregðast við að mati margra bæjarbúa. Mynd Austurland.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.