Mæðgin gripin með 2 kg af fíkniefnum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. sep 2022 15:46 • Uppfært 21. sep 2022 15:51
Liðlega tvö kílógrömm af amfetamíni og kókaíni fundust falin í ferðatöskum mæðgina sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar að morgni þriðjudags í síðustu viku.
Þetta kemur fram í svari lögreglunnar á Austurlandi við fyrirspurn Austurfréttar.
Móðirin er á fertugsaldri en sonurinn á sextánda aldursári. Þau voru bæði úrskurðuð í gæsluvarðhald til föstudagsins 23. september. Vegna ungs aldurs er pilturinn ekki í fangelsi í gæsluvarðhaldinu heldur vistaður á stofnun fyrir ungmenni.
Rannsókn málsins, sem unnið var í samstarfi lögreglu og tollgæslu, miðar vel. Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.
Í lok júní fannst talsvert magn fíkniefna falið í bifreið sem kom með ferjunni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi stendur rannsókn þess máls enn yfir.