Malbikað hringinn í kringum Löginn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. okt 2022 14:33 • Uppfært 12. okt 2022 14:34
Nýbúið er að klæða tæplega 4 km kafla á Upphéraðsvegi um Fell, frá Ormarsstaðaá að Hofi. Þar með er allur hringurinn um kringum Löginn orðinn með bundnu slitlagi.
Á undanförnum árum hefur vegurinn um ysta hluta Fljótsdals og Fell verið skref fyrir skref lagður bundnu slitlagi. Lokaáfanginn var í sumar þegar þessi 3,7 km langi kafli var kláraður. Stærsta verkið í honum var breytt lega um Ásklif.
Þar með er hægt að keyra á bundnu slitlagi umhverfis Löginn með að fara yfir ystu brúna á Jökulsá í Fljótsdal við Hengifoss. Þá er er hægt að keyra á bundnu slitlagi að norðanverðu frá Fellabæ upp að Fljótsdalsstöð.
Þ.S. verktakar sáu um vegagerðina. Nú er verið að vinna lokafrágang, setja stikur og girða meðfram veginum. Eins á eftir að mála yfirborð hans.
Til stendur að gera það innan tíðar, líkt og með aðra vegkafla sem voru endurbættir síðsumars eða nýbúið er að leggja svo sem við Arnórsstaði á Jökuldal eða til Borgarfjarðar. Beðið hefur verið eftir verklokum á síðastnefnda kaflanum sem er sá lengsti. Í gær var hann sópaður og ætti því ekkert að standa í vegi fyrir málun.