Margra mánaða hreinsunarstarf framundan á skógræktarsvæði Djúpavogs

„Þarna er óhemju mikið hreinsunarstarf framundan og ég tel ljóst að það þarf einhver fjárhagsaðstoð að koma til einhvers staðar frá því það þarf alvöru tæki og vélar til að hreinsa svo vel sé,“ segir Kristján Ingimarsson á Djúpavogi.

Hið fallega skógræktarsvæði Djúpavogs er nánast rústir einar eftir óveðrið um helgina og vart lengur farið þar um þá mörgu stíga sem búið var að leggja um skóginn því stór og mikil tré liggja eins og hráviði um allt. Kristján giskar á að fleiri hundruð tré, þar á meðal flest þau elstu, hafi fallið í óveðrinu.

Þetta er sérstaklega leiðinlegt því aðeins er rúm vika síðan skógræktarfélagið fagnaði 70 ára afmælinu og margir íbúar á svæðinu mæta reglulega í skóginn til útivistar og afþreyingar því óvíða er skjólsælla á stóru svæði að sögn kunnugra.

„Þarna eru mikil lífsgæði horfin í þessum hvelli og skógurinn þarf langan tíma til að ná sér eitthvað að nýju. Ég verð bara að vona að hjálp berist frá einhverjum aðilum hvort sem það er sveitarfélagið eða ríkið því allt starf hér er unnið í sjálfboðavinnu og engin leið að grisja neitt að ráði án vinnuvéla eða verktaka að mínu viti.“

Ein mynda sem Kristján tók á ferð sinni í skóginn í gær sem sýnir glögglega hversu eyðileggingin er mikil. Hann segir aðeins lítinn hluta skógarins aðgengilegan vegna braks og fallinna trjáa. Mynd Kristján Ingimarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.