Meiri tafir á nýjum Axarvegi meðan ráðuneyti ráða ráðum sínum
Ljóst er orðið að framkvæmdir við nýjan heilsársveg yfir Öxi sem til stóð að færu í gang á fyrri hluta næsta árs tefjast enn og aftur. Ástæðan er að innviða- og fjármálaráðuneytin endurskoða nú öll samvinnuverkefni varðandi samgönguframkvæmdir.
Þetta hefur Austurfrétt fengið staðfest hjá Vegagerðinni en á þeim bænum er þó engin biðstaða vegna stöðunnar því þar er áfram unnið að fullnaðarhönnun nýja vegarins. Það merkir að undirbúningi verður að mestu eða öllu leyti lokið þegar verkið fer loks í útboð. Um er að ræða lagningu 20 kílómetra vegkafla frá mótum Skriðdals- og Breiðdalsvegar, yfir Öxi og niður í botn Berufjarðar og um heilsársveg að ræða ólíkt núverandi Axarvegi sem lokast jafnan yfir háveturinn.
Hvenær útboð fer fram er óljóst en upphaflega var óskað eftir áhugasömum bjóðendum vegna þess síðastliðinn febrúar eða fyrir átta mánuðum síðan. Þá þegar hafði verkefnið tafist því upphaflega var gert ráð fyrir að Axarvegur færi í útboð haustið 2021 og framkvæmdir myndu hefjast á þessu ári.
Nýr Axarvegur er svokallað samvinnuverkefni ríkis og einkaðila þar sem ríkið leggur til helming framkvæmdakostnaðar á móti verktökum en verktaki mun hafa með viðhald og rekstur vegarins að gera í allt að 30 ár í kjölfarið.
Kallað hefur verið eftir vegabótum á Axarvegi um áratugaskeið. Upphaflega stóð til að framkvæmdir við nýjan heilsársveg væru hafnar nú þegar.