Meiri veiði og stærri makríll
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. júl 2022 15:30 • Uppfært 21. júl 2022 15:31
Veiði íslensku makrílskipanna í Smugunni er heldur að glæðast og fiskurinn að verða batna.
Hoffell er væntanlegt til hafnar á Fáskrúðsfirði í nótt með um 1.100 tonn. Á heimasíðu Loðnuvinnslunnar segir að makríllinn sé stærri en verið hefur og veiðin góð. Skipið fer út strax eftir löndun.
Sami tónn er sleginn í frétt Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar lauk Bjarni Ólafsson við að landa 1.100 tonnum í gærkvöldi og rúmlega eitt í nótt kom Börkur að bryggju með 1.600 tonn.
Haft er eftir skipstjóra Barkar, Hálfdan Hálfdanarsyni að í byrjun ferðar hafi lítið sést af fiski en svo allt í einu sést torfur á blússandi ferð til norðurs. Fiskurinn sem nú veiðist sé stærri en síðustu vikur og minni áta.
Veiðisvæðið er um 340 sjómílur frá Austfjörðum og tekur skipin um sólarhring að sigla til heimahafnar. Til viðbótar við þessi skip kom Venus til hafnar á Vopnafirði í gærmorgunn og Aðalsteinn Jónsson til Eskifjarðar.
Jón Kjartansson er á leið heim af miðunum en meðal þeirra skipa sem eru að veiða eru Beitir, Barði, Víkingur og Guðrún Þorkelsdóttir. Haft er eftir Hálfdani að töluvert hafi fjölgað af skipum á veiðisvæðinu þegar fréttir bárust af aukinni veiði.