Miðasala á Eistnaflug tók kipp með veðurspánni
„Miðasala hefur gengið vel en tók algjöran fjörkipp í vikunni þegar ljóst varð að alls staðar í landinu nema hér á Austfjörðum verður rigning og kuldi,“ segir Magný Rós Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Eistnaflugs.
Þessi þekkta þungarokkshátíð í Neskaupstað hefst í dag og framundan linnulaust partí fram undir morgun á sunnudaginn kemur að sögn Magnýjar. Skipulagning öll gekk vonum framar en reyndar var heilmikið púsl að koma listamönnunum fyrir í bænum á meðan hátíðinni stendur.
„Það er gamalkunnugt vandamál með gistingu hér þegar stórir viðburðir eiga sér stað. En bæjarbúar komu okkur til hjálpar og leigja út herbergi og herbergi og svo er hér nýtt gistihús sem ákvað að opna fyrir okkur þó ekki væri formlega búið að opna. Ég er farin að anda rólegar enda öll púslin að falla á réttan stað.“
Dagskráin er þétt og hefst klukkan 16:30 næstu þrjá dagana og stendur til miðnættis og mögulega aðeins lengur lokakvöldið. Sem fyrr fer allt fram innandyra í Egilssbúð. Margar þekktar sveitir koma fram og enginn þungarokksaðdáandi kannast ekki við nöfn eins og Vintage Caravan, Blóðmör eða Celestine. Þá má ekki gleyma heimasveitinni Dusilmenni sem komust í úrslit Músiktilrauna í vetur né heldur stuðbandinu Stuðlabandið sem er lokaatriðið á föstudagskvöld.
Þá ætla skipuleggjendur að prófa að bjóða upp á tívolístemmningu í portinu við Egilssbúð upp úr hádegi á laugardag svona fyrir yngra fólk í bænum.
„Þar verður við með sölubás, blöðrur, ís og krap og svona ýmislegt sem unga fólkið hefur gaman að og erum að reyna að græja trampólín þessa stundina. Hugmyndin að skapa svona netta sumarstemmningu utandyra samhliða hátíðinni.“
Miðasala á viðburðina fer fram á Tix.is en Magný segir vel mögulegt að kaupa miða á staðnum líka.
Hátíðin Eistnaflug þykir hafa tekist afar vel undanfarin ár að frátöldum Covid-tímanum þegar hún var blásin af. Dagskráin nú með þeim allra þéttustu.