Mikið starf framundan við hreinsun Hálsaskógar
Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir formaður Skógræktarfélags Djúpavogs segir að mikið starf sé framundan við hreinsun Hálsaskógar. Félagið er hinsvegar fámennt og þarf aðstoð við verkið.
Óveðrið sem skall á Austurland um daginn olli miklum skaða í Hálsaskógi. Í umfjöllun Bændablaðsins um málið kemur fram að á milli 300 og 500 tré hafi laskast eða eyðilagst. Þessi tré þarf að draga úr skóginum og á brott.
Anna Sigrún segir að Skógræktin muni senda mannskap þeim til aðstoðar. Þeir menn munu fara um svæðið og tryggja það þannig að hægt sé að hefjast handa við hreinsun.
„Það er mikið verk að hreinsa skóginn og því þurfum við fleiri hendur,“ segir Anna Sigrún og bætir því við að hreinsunarstörf hefjist um leið og mannskapurinn frá Skógræktinni lýkur sínu starfi.
Fram kemur í máli hennar að gamli þjóðvegurinn liggur um Hálsaskóg og málið sé að koma hinum eyðilögðu trjám upp að þeim vegi svo hægt sé að keyra þau á brott.
„Við stefnum á að klára þessa hreinsun í vetur og það ætti að vera hægt ef veðrið verður eins og á venjulegum vetri,“ segir Anna Sigrún.
Þá segir Anna Sigrún að sveitarfélagið muni að einhverju leiti aðstoða við endurreisn Hálsaskógar.
Hálsaskógur hefur verið vinsælt útivistarsvæði meðal Dúpavogsbúa sem og ferðamanna, innlendra sem erlendra
Mynd: Aðsend.