Mikil bragarbót á upplýsingagjöf til vegfarenda
Hvenær lokast vegurinn yfir Öxi? Er búið að moka snjó alla leið milli Borgarfjarðar eystri og Egilsstaða? Hversu mikil hálka er á Möðrudalsheiði og ættu ökumenn að gæta sín á hreindýrahópum á Fagradal?
Allt spurningar sem vegfarendur austanlands gætu spurt sig við upphaf ferðar nú þegar vetur konungur er farinn að gera vart við sig og góðu heilli hefur Vegagerðin nú sett í loftið töluvert betri upplýsingavef um færð á vegum en verið hefur í boði hingað til.
„Stóri munurinn fyrir vegfarendur er að þarna er um eitt kort að ræða í staðinn fyrir níu mismunandi kort áður og hægt að þysja hingað og þangað með tölvum og farsímum ólíkt því sem áður var,“ segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðinnar í samtali við Austurfrétt.
Stofnunin hefur gert bragarbót á upplýsingagjöf til vegfarenda með nýjum vef en eldri upplýsingarvefurinn, sem er þó enn uppi, er löngu orðinn barn síns tíma. Með nýja vefnum er ekki aðeins hægt að þysja Íslandskort út og suður heldur og minnka eða stækka kortið eftir hentugleika hvers og eins. Þar koma líka skýrt fram aðvaranir ef einhverjar eru svo og almennar upplýsingar um almenna færð á heilu svæðunum fyrir sig.
Nýi vefurinn finnst á www.umferdin.is fyrir íslenskumælandi fólk eða www.trafficinfo.is ef um enskumælandi vegfarendur er að ræða. Verið er að skoða nú, að sögn G. Péturs, hjá Vegagerðinni að útbúa pólska útgáfa vefsins með tilliti til mikils fjölda Pólverja sem búsettir eru í landinu.
Skjáskot af nýjum upplýsingavef Vegagerðarinnar um færð á vegum landsins. Hann er sífellt uppfærður og þar fást allra nýjustu upplýsingar sé fólk á faraldsfæti um landið.