Skip to main content

Mikill áhugi að selja beint frá býli í Fljótsdal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. ágú 2022 09:38Uppfært 15. ágú 2022 12:54

„Það var stór meirihluti bændanna sem sýndu því áhuga og sama má segja um söluaðila í nærsveitum,“ segir Sandra Hrafnhildur Harðardóttir, sem í sumar hefur unnið verkefni í tengslum við nýsköpun í sölu og markaðssetningu sauðfjárafurða úr Fljótsdal

Þar vísar Sandra til þess að meirihluti þeirra bænda sem í dalnum búa hafa áhuga að vinna frekar með afurðir sínar en nú er og hugsanlega selja þær beint frá býli í framtíðinni. Nánast engir þeirra gera slíkt í dag að sögn Söndru en ein tillaga hennar í kjölfar verkefnisins er að bændurnir taka sig saman og setji upp sérstaka nefnd eða ráð sem ætlað verður að aðstoða áhugasama með framhaldið.

Verkefni Söndru er hluti af mun stærra verkefni hreppsins sem gengur undir nafninu Fögur framtíð í Fljótsdal og er ætlað er að efla og styrkja samfélagið í dalnum til framtíðar.

Hún kannaði líka hvort helstu söluaðilar í grennd eða nærsveitum sýndu því áhuga að selja unnar vörur frá bændum í Fljótsdal og komst að því að svo er sannarlega.

„Það var mjög vel tekið í það af næstum öllum sem ég ræddi við og mjög merkjanlegur áhugi á afurðum úr nærsveitum enda stemmir það við þróunina sem verið hefur undanfarið víðast hvar.“

Næstu skref segir Sandra er að kynna niðurstöður að fullu fyrir íbúum hreppsins og fá samtal á móti. „Það tekur tíma og peninga að koma upp aðstöðu til að vinna kjötvörur og selja í kjölfarið. Það er eitthvað sem nefndin eða ráðið gætu hugsanlega komið að og hjálpað því margir sem ég ræddi við vissu lítið um hvað fælist í því að selja frá býli eða hvaða skref þyrfti að taka í því skyni.“

Sífellt fleiri bændur vilja selja beint frá býli og þá oftar en ekki um sauðfjárafurðir að ræða þó allmargir selji líka grænmeti og jafnvel ávexti.