Mikilvægt að hafa virkjanir dreifðar um landið

Framkvæmdastjóri Arctic Hydro, framkvæmdaaðila Þverárvirkjunar í Vopnafirði, segir að virkjunin komi til með að skipta miklu fyrir raforkuöryggi í nánasta nágrenni sínu. Nauðsynlegt sé að styrkja flutningskerfi raforku með virkjunum dreift um landið.

Virkjunin er nú langt komin þótt ekki hafi tekist að klára stífluna vegna aðstæðna heldur verður það gert næsta sumar. Virkjunin getur framleitt 6 MW og verður hennar afl væntanlega að mestu nýtt á Vopnafirði.

„Vopnafjörður er tengdur um eina raflínu og ef hún er úti þarf að keyra varaafl sem er innflutt díselolía með tilheyrandi mengun. Með virkjuninni aukum við orkuöryggi, orkugæði og orkuframboð.

Hún getur keyrt sem eyja þannig hún getur haldið rafmagni á hluta þorpsins ef Vopnafjarðarlína dettur út,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro í þættinum Að austan sem sýndur var á N4 í gærkvöldi.

„Hámarksnotkun á Vopnafirði fer upp í 18 MW og þá er allt undir. Það verður að hafa í huga að hér er ekki hitaveita heldur kynt með rafmagni og öflugur sjávarútvegur. Þverárvirkjun leysir ekki allan vandann en hún hjálpar.“

Skírnir segir skipta máli að vera með raforkustöðvar á nokkrum stöðum á landinu. „Tap í flutningskerfinu er um 400 GWH, eins og ein Kröfluvirkjun. 1000 MW virkjun á Reykjanesi gerir þess vegna lítið fyrir Vopnafjörð. Því er bæði sparnaður og öryggi í framleiðslu á svæðinu.

Loftslagsbreytingar og súrnun sjávar er ein helsta ógn okkar í umhverfismálum. Þess vegna þurfum við að nota endurnýjanlegu orkuna. Það er umhverfisvænt að virkja grænt. Ég er orkufræðingur og umhverfisfræðingur. Ég vil ekki fara í Skógafoss eða Gullfoss, við verðum að sýna skynsemi, en það er ekki hægt að segjast vera á móti virkjunum en vilja samt fá öll þægindin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.