Mikilvægt að ráðherra sýni með fordæmi að hægt sé að vinna óháð staðsetningu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti starfsaðstöðu sína austur í Egilsstaði í gær. Með því vill hún sýna fordæmi um að hægt sé að vinna óháð staðsetningu. Tækifærið notaði hún til að kynna sér málefni sem snúa að hennar ráðuneyti svo sem umhverfi nýsköpunar og fjarnám í fjórðungnum.

Áslaug Arna hefur í haust verið á ferðinni og voru Egilsstaðir tíundi staðurinn sem hún heimsækir. Hún ætlar sér að halda áfram að vinna vítt um landið og er með Fjarðabyggð á dagskránni eftir áramót.

„Þegar ég tók við nýju ráðuneyti vildi ég að það bæri þess merki að vera stofnað árið 2022, meðal annars með að auglýsa sem flest störf óháð staðsetningu. Enn höfum við ekki auglýst starf sem er bundið við ákveðinn stað.

Mér fannst mikilvægt að ég sýndi fordæmi. Víða um land dafna skrifstofur með góðri aðstöðu til að vinna störf óháð staðsetningum og ég vild starfa sjálf á þessum stöðum. Með þessu get ég líka kynnst málaflokkum ráðuneytisins um allt land hraðar. Ég hef hitt yfir 400 aðila núna fyrstu mánuðina og síðan býð ég upp á opna viðtalstíma líkt og ég geri í bænum.“

Ýmis málefni bar á góma í viðtalstímanum. „Það kom fullt af fólki sem var ótrúlega gaman. Það var meðal annars rætt um aðgengi að fjarnámi, um stöðu Hallormsstaðaskóla, stuðningsumhverfi nýsköpunar og um einföldum regluverks og skilvirkni hins opinbera.

Ég fer heim með skýrari hugmynd um hver metnaðurinn er í hverju samfélagi. Hér er metnaður til að byggja upp samkeppnishæft samfélags sem laðar að sér fólk.“

Rík hvatning um fjarnám

Á afmælisfundi Austurbrúar í vor tilkynnti Áslaug Arna um að B.Sc. nám í tölvunarfræði færi af stað í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. „Ég hef fengið ríka hvatningu víða um mikilvægi aukins fjarnáms. Ég ræddi það við Austurbrú í dag.

Síðan í vor hef ég tekið tvær stórar ákvarðanir til að auka fjarnám. Háskólarnir eru sjálfstæðir svo ráðherra getur ekki gripið beint inn í þeirra starf en hann getur búið til hvata. Ég tók fjármuni úr öðrum verkefnum og forgangsraðaði þannig skólarnir geta sótt um fé til samstarfs gegn ákveðnum skilyrðum, svo sem um fjarnám. Undanfarin ár hefur fjármögnun skólanna alfarið ráðist af nemendafjölda. Síðan eru hvatar til að mennta fleira fólk í heilbrigðisvísindum, til dæmis til starfa á landsbyggðinni. Þarna eru tveir milljarðar til ráðstöfunar.“

Bætt í fjármögnun nýsköpunar síðustu ár

Áslaug Arna hóf daginn á crossfit-æfingu í Austur, fór síðan á Seyðisfjörð í morgunmat á Filling Station/Austurlands Food Coop en heimsótti síðar um daginn þrjú nýsköpunarfyrirtæki: Go-IoT, Yggdrasil Carbon Carbon og Wasabi áður en deginum lauk í Vök Baths.

Aðilar sem staðið hafa að nýsköpunarverkefnum á Austurlandi hafa bent á að erfitt sé að nálgast fjármagn í slík verkefni. Oft sé svæðið talið kalt eða vanþróað þannig fjárfestar treysta sér ekki í það. Á sama tíma er mikil ásókn í sjóði á borð við uppbyggingarsjóði landshlutanna eða Lóu, nýsköpunarsjóð fyrir landsbyggðina, sem stofnaður var fyrir tveimur árum.

„Við höfum hlaupið hratt í að bæta umhverfi nýsköpunar síðastliðin ár þannig við erum nú orðin samkeppnishæf við önnur lönd. Fjármögnunin er orðin mikil þótt hún sé ekki fullkomin. Spurningin er alltaf hvernig við dreifum fjármögnuninni, til dæmis milli kynja og byggða. Eins þurfum við að tryggja að styrkirnir séu nýttir rétt þannig ekki verði sóun í kerfinu. Stærsti einstaki hlutinn er endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði, sem er komin í yfir 12 milljarða.

Lóunni er meðal annars ætlað í að ýta undir að verkefnin sæki síðar í sjóði Rannís. Þar er nú komið opið gagnatorg þar sem hægt er að sjá dreifingu styrkja, meðal annars árangurshlutfall eftir landshlutunum. Það er talað um að 20% sé ágætis árangurshlutfall í svona sjóðum.

Þetta hefur skilað okkur því að hugverkaiðnaður og hugvit sem útflutningsgrein er orðin fjórða stoðin í íslensku efnahagslífi. Við höfum alltaf verið stolt af Össuri og Marel en nú hafa fleiri bæst við. Hugverkaiðnaðurinn var stærri árið 2020 en sjávarútvegurinn. Þetta skapar hálaunastörf sem mörg er hægt að vinna um allt land.“

Fjarskiptamál bar einnig á góma í gær. „Það liggur á að símafyrirtækin starfi betur saman um senda og annað til að tryggja háhraðanetsamband. Við náum ekki auknum tækifærum um allt land nema stuðla að bættu fjarskiptasambandi. Við höfum þegar tryggt að fyrirtækin geti starfað saman að öryggismælum svo þetta í næst.“

Áslaug Arna var með starfsaðstöðu hjá Austurbrú. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.