Skip to main content

Móðurást fallegasta íslenska orðið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. nóv 2022 14:16Uppfært 16. nóv 2022 14:16

Orðið „móðurást“ var valið fallegasta orð íslenskrar tungu í kosningu á vegum Verkmenntaskóla Austurlands. Þetta var tilkynnt í morgun á sama tíma og skólinn tók á móti Grænfánanum í þriðja sinn.


Á Tæknidegi fjölskyldunnar, sem haldinn var í húsnæði skólans í byrjun október, var tekið á móti tilnefningum um fallegasta orðið í íslensku. Fjölmargar tilnefningar bárust og í kjölfarið var sett upp opin vefkönnun.

Í hana bárust um 500 atkvæði þar sem „móðurást“ varð hlutskarpast. Tilkynnt var um úrslitin á sal skólans í morgun á degi íslenskrar tungu.

Þar var haldin athöfn í tilefni þess að skólinn fékk Grænfánann, vottun á umhverfisstarfi skóla, afhentan í þriðja sinn og þess að skólinn lauk á árinu fimm grænum skrefum. Skólinn setur sér markmið í umhverfismálum til tveggja ára og fær grænfána ef þau nást.

Sem dæmi má nefna flokkun á rusli, miðar um að slökkva ljós, fataskiptasláin o.fl. Verkefnið græn skref hefur stutt við þetta og hafa ýmsar aðgerðir þaðan komið til framkvæmda, svo sem mæling á matarsóun, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og hjólaskýli.

Frá athöfninni í morgun. Mynd: VA