Skip to main content

Möðrudalsöræfum lokað í fyrramálið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. okt 2022 00:23Uppfært 09. okt 2022 00:25

Veginum yfir Möðrudalsöræfi verður lokað í síðasta lagi klukkan sjö í fyrramálið. Viðbúið er að fleiri vegum eystra verði lokað þegar líður á daginn. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi fyrir Austurlands vegna kröftugrar lægðar sem gengur yfir svæðið.


Viðvörun var í gær gefin út fyrir Austurland að Glettingi. Þar er appelsínugul viðvörun frá 12-17 en rauð frá 17 til 1 eftir miðnætti þegar aftur gengur í gildi appelsínugul viðvörun. Á Austfjörðum er í gildi appelsínugul viðvörun frá 19 í dag til níu á mánudagsmorgunn.

Á þessum tíma er búist við hvössum norðvestan vindi og mikilli úrkomu sem viðbúið er að falli sem slydda út við ströndina en snjókoma ofar. Til fjalla verður einfaldlega snjóbylur, einkum á Norðausturlandi. Ekkert ferðaveður verður á þessum tíma og hefur Landsnet varað við rafmagnstruflunum vegna ísingar.

Vegagerðin gaf í gærkvöld út líklegar tímasetningar lokana á vegum. Óvissustig gengur í gildi á Mývatns- og Möðrudalsöræfum klukkan sjö í fyrramálið og verður veginum lokað í síðasta lagi klukkan átta.

Óvissustig gengur í gildi fyrir Fagradal, Breiðdalsheiði, Fjarðarheiði og Öxi klukkan 16 síðdegis. Varað er við að þessir vegir kunni að lokast með stuttum fyrirvara. Þá verður óvissustig á veginum milli Djúpavogs og Hafnar frá hádegi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti í gær yfir hættustigi á Austurlandi vegna veðurs, mikillar úrkomu og líklegra samgöngutruflana.

Í yfirferð frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands segir að spár geri ráð fyrir meira en 10 mm/klst úrkomu á Norðausturlandi í nokkrar klukkustundir. Þó nokkur munur verður á milli Norður- og Austurlands og má gera ráð fyrir allt að sjö stiga hita í Neskaupstað um morguninn. Eftir klukkan þrjú síðdegis fer að kólna eystra.

Ofanflóðadeildin bendir á að miðað við magn úrkomu á Austurlandi sé tilefni til að vara við aukinni skriðuhættu. Snjóflóðahætta kann að skapast til fjalla á Norðurausturlandi en ekki er talin hætta í byggð. Ofanflóðavakt fylgist með aðstæðum.

Mynd: Aðsend