Mögulega stærsta framfaraskref í íslenskri nautgriparækt
„Þessi stóri áfangi markar tímamót í íslenskri nautgriparækt þar sem nú tekur við erfðamengisúrval með tilheyrandi umbyltingu á því kynbótaskipulagi sem hefur verið við lýði undanfarna áratugi,“ skrifar Guðmundur Jóhannesson hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins.
Mikil tíðindi urðu á vettvangi naugriparæktar í gær þegar nýtt kynbótamat, unnið upp úr erfðasýnum, var notað á fundi fagráðs í nautgriparækt til að velja naut til undaneldis í framtíðinni. Slík ákvörðun er mikil bylting frá því sem verið hefur.
Að þessu hefur verið stefnt lengi vel undir merkjum verkefnisins Erfðamengisúrval en það gengur út á að greina erfðamengi einstakra gripa og reikna þannig út svokallað kynbótamat þeirra í því skyni að komast að raun um hversu frambærilegir gripirnir eru til framræktunar. Með slíku á að nást meira öryggi kynbótamats, stytta ættliðabil og síðast en ekki síst hraða erfðaframförum.
Þó íslenski kúastofninn sé algjörlega einstakur á heimsvísu hefur framleiðslugeta þess stofns aldrei náð sömu hæðum í framleiðslugetu og margir erlendir stofnar státa af. Hefur verið unnið að því markvisst um fimm ára skeið og ráða bót á þessu með erfðarannsóknum. Kúabændur hófu á þessu ári að taka sjálfir sýni úr kvígukálfum vegna verkefnisins en þau sýni fara til arfgreiningar hjá Matís.
Sérfræðingar hafa metið að ávinningur verkefnisins geti numið um 40 milljónum króna á ári í minnkuðum framleiðslukostnaði fyrir mjólkuriðnaðinn í heild. Að auki munu meiri afköst og minni sóun leiða af sér almennt minni losun frá greininni í heild.
Fagráðið valdi alls 22 naut til notkunar á næstunni samkvæmt fyrrnefndu erfðamati og þau koma víða að af landinu. Austurland á einn fulltrúa þar á meðal en það er nautið Samson Dorritarson frá Egilsstöðum á Völlum. Hann vitaskuld undan Dorrit sem komst í fréttirnar á sínum tíma þegar Dorrit Moussiaeff, þáverandi forsetafrú, heimsótti Egilsstaðabæ 2014 og heimsótti fjósið þar sem Dorrit hafði fæðst nóttina áður.