Mun sinna lektorsstarfi við HÍ frá Egilsstöðum

Kristján Ketill Stefánsson, nýráðinn lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, mun sinna starfi sínu frá Egilsstöðum. Kristján, sem sérstaklega hefur rannsakað áhugahvöt í námi, segir Covid-faraldurinn hafa breytt viðhorfi og aðstöðu fyrir fjarnám.

„Ég gerði kröfu um að ég gæti sinnt þessu starfi frá Egilsstöðum og það var ekki gerð athugasemd við það,“ segir Kristján Ketill.

Hann hefur um árabil rekið Skólapúlsinn og haft aðsetur í B-húsi á Vonarlandi á Egilsstöðum. Hann færir sig yfir í A-húsið þar sem Rannsóknasetur HÍ er til húsa. Kona hans, Kristín Una Friðjónsdóttir mun taka við Skólapúlsinum og skrifstofunni í B-húsi. „Þarna eru orðin til tvö störf fyrir háskólamenntað fólk á Austurlandi og okkur þykir afar gaman að hafa átt þátt í að fjölga þeim.“

Hérlendis er lektor lægsta stig fastráðinna kennara við háskóla, á eftir dósent á prófessor. Lektorar geta meðal annars unnið sig upp í hærri stöðu með rannsóknaframlagi. Í hærri stöðu minnkar kennsluskyldan en rannsóknaframlagið eykst.

„Ég hef tvisvar verið ráðinn aðjúnkt við HÍ, árið 2008 og 15. Aðjúnktinn er bara ráðinn til árs í senn og þarf að skila rúmlega 1100 kennslutímum. Lektorinn er ráðinn til fimm ára og kennsluskyldan minnkar um 300 tíma. Á móti gefst meiri tími til þess sem ég hef verið að gera að skrifa niðurstöður rannsókna í vísindatímarit með öðru starfsfólki og birta þær. Þær eru síðan metnar til rannsóknastiga,“ útskýrir Kristján Ketill.

Góð reynsla af fjarkenndum námskeiðum

Kristján Ketill segir viðhorfið til fjarkennslu hafa verið að breytast síðustu ár. „Ég var fenginn til að leysa af við kennslu í tveimur námskeiðum í aðferðafræði hjá Menntavísindasviði síðasta vetur. Ég var að kenna á hugbúnað og gerði það alfarið í gegnum Zoom og Canvas.

Það var mjög þægilegt að kenna þessi námskeið því í Covid kom fólk sér upp góðri aðstöðu heima við auk þess sem í gegnum þessi kerfi heyra allir allar spurningar. Áfangarnir komu vel út í kennslumati, einn sagði þetta best skipulagða námskeið sem hann hefði sótt hjá HÍ. Ég notaði það sem rök fyrir að þetta fyrirkomulag væri góð hugmynd.“

Kristján Ketill býst við að starf hans snúist mest um að kenna og leiðbeina nemendum á meistara- og doktorsstigi í megindlegri aðferðafræði auk þess að vinna úr gögnum sem safnað hefur verið, til dæmis í gegnum Pisa-kannanir og Skólapúlsinn.

„Í Skólapúlsinum hafa safnast upp mikið af gögnum sem veitt hefur verið leyfi til að nota í akademískum tilgangi, það er að vinna með heildartölur þannig að skólasamfélagið geti gert sér grein fyrir tengslum. Ég hef líka mikið rannsakað áhugahvöt til náms, einkum lestraráhugahvöt og reikna með að koma inn í kennslu námskeiða þar sem áhugahvöt og kennsluaðferðir sem tengjast henni eru teknar fyrir.“ 

Kristján Ketill Stefánsson. Mynd: VG Múlaþingi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.