Muninn kominn allur upp úr sjó

Fóðurpramminn Muninn, sem sökk í Reyðarfirði í miklu óveðri í janúar 2021, er nú allur kominn upp úr sjó. Engar ákvarðanir liggja enn fyrir um framtíð hans. Fiskaeldi Austfjarða/Laxar hafa að undanförnu sett úr seiði í fjórar eldiskvíar þar og Fáskrúðsfirði. Búið er að herða verklagsreglur eftir blóðþorrasmit á eldissvæðum fyrr á þessu ári.

Fóðurprammanum var í lok sumars lyft upp af hafsbotni og dreginn inn í höfnina á Reyðarfirði. Þar var fóðri dælt upp úr honum áður en honum var loks lyft öllum upp fyrir um mánuði.

Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða/Laxa, segir framtíð prammans verða ákveðna í samráði við tryggingafélag. Hann segir skel prammans vera mjög heillega og að hans mati væri því hægt að hreinsa búnað innan úr prammanum og byggja hann upp aftur en það verði sérfræðingar að meta betur.

Búi að setja út seiði á fjórum stöðum

Framleiðsla fyrirtækisins er aftur að komast á ról eftir áföll á árinu þar sem slátra varð seiðum úr eldissvæðum á Reyðarfirði og Berufirði fyrr en áætlað var þar sem blóðþorri, sem kemur úr meinvirkri gerð ISA-veiru, fannst á eldissvæðunum. Um jólin verður lokið við að slátra fiski úr Berufirði. Seiði verða sett þar aftur út næsta vor, að lokinni tilskilinni hvíld.

Búið er að setja út seiði á eldissvæðunum við Gripalda og Sigmundarhús í Reyðarfirði sem lokið hafa hvíldartíma vegna veirunnar. Þá hafa verið sett út seiði við Fögrueyri og Höfðahúsabót í Fáskrúðsfirði. Þar kom veiran ekki upp heldur var slátrað samkvæmt áætlun. Seiðin sem sett voru út í Höfðahúsabót voru um 1 kg að þyngd og koma því fyrst inn til slátrunar þegar hún hefst á ný um mánaðamótin ágúst/september á næsta ári. Seiðaflutningum er þar með lokið á þessu ári.

Verklagsreglum breytt til að varna smitum

Ekki er ljóst hvernig ISA-veiran barst inn á eldissvæðin en Jens Garðar segir ljóst að hún hafi mallað á Gripalda, þar sem hún greindist fyrst, í einhvern tíma án þess að hennar yrði vart. Verið er að breyta verklagi hjá fyrirtækinu til að hindra smit milli eldissvæða og minnka líkurnar á því til frambúðar.

„Samkvæmt nýrri framleiðsluáætlun verða eldveggir milli allra stöðva þannig þar verður engin umferð á bátum, búnaði eða fólki. Þjónustubátar sem þurfa á milli verða sótthreinsaðir. Þetta lágmarkar hættuna á að smit dreifist á milli eins og hægt er. Með þessu er brugðist við nýjum veruleika, að veiran virðist í náttúrunni hjá okkur eins og annars staðar.

Eftir áramót vonumst við til að geta farið að bólusetja fyrir veirunni. Samkvæmt rannsóknum minnkar það líkurnar á smiti um 70-80%. Þar með verðum við komin í sama fyrirkomulag og Færeyingar.“

Fiskeldisfyrirtækið hefur einnig sótt um eldi í Stöðvarfirði og Seyðisfirði. Á Stöðvarfirði er beðið eftir endurskoðun áhættumats en samkvæmt fyrra mati var ekki talið óhætt að alda frjóan fisk í firðinum. Á Seyðisfirði er starfs- og rekstrarleyfi í vinnslu hjá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Að sögn Jens vinna þær stofnanir aðeins eitt leyfi í einu og er leyfi annars staðar á landinu á undan Seyðisfirði í röðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.