Skip to main content

Nánast skrúfað fyrir veiði á stærsta veiðisvæðinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. nóv 2022 15:12Uppfært 03. nóv 2022 15:13

Náttúrustofa Austurlands leggur til þess að nær allur veiðikvóti hreindýra á svæði 2 verði skorinn niður. Veiðar á svæðinu hafa gengið illa síðustu ár og dýrum þar virðist hafa fækkað mikið af enn ókunnum ástæðum.


Náttúrustofan gaf í byrjun vikunnar út drög að hreindýraveiðikvóta næsta árs en tekið er við skriflegum athugasemdum um hann fram til 25. nóvember.

Heildarkvótinn lækkar um 9%, úr 1021 dýri í 938. Fækkunin er nær öll á svæði 2, þar sem kvótinn minnkar úr 170 dýrum í 30. Er það í samræmi við umræður sem sköpuðust síðsumars þegar gripið var til aðgerða þar sem ekkert gekk að veiða dýr á svæði 2 um að rétt væri að hvíla svæðið í einhvern tíma í von um að dýrin kæmu þar aftur fram, en halda lágmarkskvóta til að tryggja umferð og þar með upplýsingaöflun.

Svæði 2 hefur löngum verið mesta veiðisvæðið. Í grófum dráttum nær það frá Grímsá að Jökulsá á Dal en þungamiðjan er Fljótsdalsheiði. Fram kemur í greinargerð Náttúrustofunnar að dýrum á svæðinu hafi fækkað úr um 2000 að loknum veiðum haustið 2017 niður í 374 nú.

Leiðsögumenn með hreindýraveiðum hafa í nokkurn tíma varað við mikilli fækkun á svæði 2 og lögðu í athugasemdum sínum fyrir ári til mun minni kvóta en síðan var gefinn út. Í greinargerð Náttúrustofunnar nú segir að lægri kvóti sé gefinn út á nokkrum svæðum nú vegna óvissu um fjölda dýra. Líklega hafi orðið fækkun sem ekki var stefnt að með ofmati á stofnstærð og þar með of stórum kvóta í fyrra. Þá segir sérstaklega að áframhaldandi fækkun dýra á veiðisvæði 2 veki upp spurningar um hvernig best sé að haga veiðistjórnun þar því fjöldi dýra innan svæðis geti verið breytilegur milli ára og árstíma.

Sérfræðingar stofnunarinnar kunna engar aðrar skýringar á mikilli fækkun dýra á svæði 2 en að dýrin sem sést hafi þar fyrir nokkrum árum hafi leitað annað, aðallega á annars vegar svæði 1, norðan Jökulsár á Dal, hins vegar á svæði 7 og 8, gamla Djúpavogshrepp og Lón, sem eru samliggjandi því úr suðri. Þessi tilgáta er studd með gögnum úr GPS-ólum sem hengdar hafa verið á hreinkýr. Minni munur í nýliðunarhlutfalla milli svæða 1 og 2 þykja einnig renna stoðum undir þetta.

Bætt á nyrsta svæðinu

Í samræmi við þetta er lögð til umtalsverð aukning veiðikvóta á svæði 1, úr 190 dýrum í 239. Fram kemur að illa hafi gengið að finna dýr þar við talningar í byrjun sumar en með hjálp GPS-ólanna hafi ríflega 440 dýra hópur fundist um miðjan júlí. Aukinn fjöldi á svæðinu er talinn stafa af því að hópar þar hafi verið vantaldir í fyrra og/eða að fleiri dýr hafi komið af svæði 2.

Á svæði 3, sem nær yfir utanvert Fljótsdalshérað sunnan Lagarfljóts og Borgarfjörð, er lögð til aukning úr 93 dýrum í 104. Á svæði 4, Seyðisfirði og Vopnafirði, er fjölgunin úr 57 í 76 dýr en á svæði 5, frá Norðfirði að Reyðarfirði fækkar úr 105 í 86 dýr. Fjöldinn á svæði 6, austanverðum Skriðdal og sunnanverði Fjarðabyggð, er nánast óbreyttur, 104 dýr í stað 100 á svæði 7 fjölgar úr 180 í 200. Fækkun er á svæðum 7 og 8 sem eru í Sveitarfélaginu Hornafirði, annars vegar Lóni og Nesi, hins vegar Mýrum og Suðursveit, úr 58 niður í 44 dýr á fyrra svæðinu en úr 68 í 55 á því seinna.

Áætlað er að hreindýrastofninn nú í byrjun vetrar sé um 4000 dýr, svipaður og í fyrra, en verði kominn upp í 5100 dýr að ári. Bent er á að viðbúið sé að leiðrétting á stofnstærð taki tíma og sé stofninn vanmetinn nú þurfi að bregðast við því síðar. Þá kemur fram að nokkuð sé síðan allsherjar vetrartalning hafi verið gerð en hún er fyrirhuguð í mars 2023.