Skip to main content

Ný göngubrú að sælureit við Eiða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2022 13:37Uppfært 29. júl 2022 13:44

„Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að þarna er töluverð umferð af göngu- og útivistarfólki og gamla brúin var orðin fúin og léleg,“ segir Einar Ben Þorsteinsson á Eiðum.

Hann, ásamt góðu samstarfsfólki, hefur nú endurbyggt göngubrúna vestan við gömlu skólabyggingarnar á Eiðum en handan hennar er ákjósanlegt göngusvæði með allnokkrum vinsælum gönguleiðum um fallegt gróið svæði. Aukinheldur er auðveldara en áður en komast að Húsatjörninni þar sem margir hafa fengið sinn fyrsta fisk á stöng gegnum tíðina.

„Þarna er afskaplega gott að koma og ganga um í yndislegu umhverfi og við hvetjum alla sem una góðum göngutúr á fallegum stað að koma og spássera um og njóta alls sem hér er,“ segir Einar en hann auk Kristmanns Þórs Pálmasonar keyptu land og eignir Eiða síðasta haust í því augnamiði að koma staðnum á sinn rétta stall að nýju.

„Það eru allir velkomnir hingað sem áhuga hafa og nei, við heimtum ekkert gjald þó fólk vilji henda línu út í Húsatjörn.“

Endurbyggð brúin er að stærstum hluta glæný brú eins og sjá má á myndinni. Mynd Jonni