Ný þjónustumiðstöð fyrir slökkvilið og björgunarsveit á Egilsstaðaflugvelli til skoðunar

Forsvarsmenn Múlaþings hafa undanfarið átt í viðræðum við Isavia og varðandi þá hugmynd að byggja nýja þjónustumiðstöð á Egilsstaðaflugvelli. Sú myndi hýsa bæði slökkvilið og björgunarsveitina á staðnum og hugsanlega áhaldahús í ofanálag.

Frá þessu skýrði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, á síðasta fundi sveitarstjórnar en þessar umræður hafa verið í gangi um tíma. Sagði sveitarstjórinn þar góðan hljómgrunn við hugmyndinni innan veggja Isavia og viðræðum yrði framhaldið.

Þá tiltók Björn að af þessu ætti ekki að fylgja neinn kostnaður fyrir Múlaþing því ef af yrði myndu losna eignir á móti sem hægt væri að selja.

Nokkuð brýnt er orðið að færa núverandi húsnæði slökkviliðs til nútímavegar enda skemman sú sem nú er notuð við hlið flugstöðvarinnar sjálfrar barn síns tíma og nokkuð þröngt orðið á þingi. Aðfinnslur, meðal annars vegna þess, komu fram í nýlegri úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aðbúnað slökkviliða hér austanlands.

Hugsanlega verður farið í framkvæmdir við flugvöllinn á Egilsstöðum á næstu árum ef allt gengur eftir. Mynd Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.