Nýr vegspotti á Jökuldal vel á áætlun
„Hefðin á Jökuldal er sú að ef upp koma vandamál þá eru þau leyst og helst jafnóðum,“ segir Benedikt Ólason, verktaki hjá Héraðsverk.
Hann og hans fólk vinna nú hörðum höndum að því að leggja nýjan fjögurra kílómetra veg inn á Jökuldal í átt að hinu geysivinsæla Stuðlagili en þar fara um dags daglega allt upp í 500 bílar þessi dægrin að sögn Benedikts. Það hefur valdið einhverjum töfum enda erfitt um vik á stöku stöðum að byggja upp veginn meðan slík umferð fer um.
„Við verðum nú samt þokkalega á áætlun sýnist mér en ráðgert er að ljúka þessu verki hér með haustinu og þá verður töluvert skemmtilegra að aka hér um en verið hefur. Annars hafa ferðamennirnir almennt sýnt okkur mikla kurteisi og lipurð og láta lítils háttar tafir lítt trufla túrinn.“
Hluti nýja vegstæðisins liggur mun lægra en núverandi vegur og snjóalög að vetrarlagi ættu því að vera minna vandamál í framtíðinni. Mynd AE