„Óásættanleg“ bið vegna brimvarnargarðanna á Vopnafirði

Seinagangur Vegagerðarinnar vegna viðgerða á brimvarnargörðum á Vopnafirði er alls óásættanlegur að mati sveitarstjórnar sem bókað hefur sérstaklega vegna málsins og ítrekað ósk um fund hið fyrsta.

Bæði ytri og innri brimvarnargarðar bæjarsins skemmdust töluvert í miklu óveðri í byrjun janúar en það er Vegagerðarinnar að sjá um endurbætur á slíkum mannvirkjum. Fyrstu skilaboð frá Vegagerðinni vegna málsins bárust sveitarstjórn í júlíbyrjun og þar lagt upp með lagfæringar á innri garðinum en sá ytri biði betri tíma. Vakti það óánægju innan sveitarstjórnar sem telur þörfina brýna að lagfæra báða varnargarðana. Það sé, með öðrum orðum, ástæða fyrir því að þeir eru tveir talsins.

Leið svo og beið fram til 8. september þegar sveitarstjórn sendi Vegagerðinni spurningar um framkvæmdina og svörin á þá leið að útboðsgögn verði til reiðu um miðjan næsta mánuð eða svo.

Það telur sveitarstjórn óásættanlega töf og í bókun sem allir samþykktu er þess krafist að málið verði unnið hraðar en svo. Þær aðstæður geti hæglega komið upp að skip geta ekki legið við festar í höfninni eins og staðan er nú.

Garðarnir sem um ræðir á Vopnafirði. Skemmdirnar í janúar voru það miklar að slæmt sjólag getur takmarkað legu skipa við höfnina eins og staðan er nú. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.