Orkumálinn 2024

Ódýrara að fara með hópinn til útlanda með sama flugfélagi

Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels og stjórnarmaður í Austurbrú, segir há flugfargjöld akkilesarhæl fyrir ferðaþjónustu á Austurlandi. Hann á ekki von á að bragarbót verði á ástandinu í innanlandsflugi fyrr en samkeppni komist þar á.

„Flestir fundir eru gagnlegir því það er alltaf byrjun og til bóta að tala saman. Ég held að allir vilji hafa hlutina í góðu lagi, líka Icelandair því þetta reynir á framlínustarfsfólkið sem þarf að taka við kvörtununum. Það er hins vegar það sem kemur í framhaldinu sem telur,“ segir Þráinn.

Hann var meðal þeirra sem sátu fund Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair og fleiri stjórnenda frá fyrirtækinu með austfirsku sveitarstjórnarfólki í morgun vegna þeirra miklu raskana sem orðið hafa í innanlandsflugi undanfarna mánuði og áhrif þeirra á atvinnulíf og samfélag á Austurlandi.

Ekki samkeppnishæf

Almennir íbúar hafa mest kvartað undan því að flugáætlanir standist illa og þótt það sé líka vont fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu nefnir Þráinn fleiri atriði sem taka þurfi á.

„Við glímum líka við há flugfargjöld sem draga úr því að fólk komi hingað. Ég þekki dæmi um hjón sem komu hingað í helgarferð í vor. Flugið kostaði þau 120 þúsund krónur.

Á fundinum í morgun benti ég á að fjöldi fyrirtækja sendir okkur fyrirspurnir um að halda ráðstefnur eða árshátíðir en trúlega 80% hætta við því flugið er svo dýrt. Austurland er ekki samkeppnishæft við ferð til Lundúna þótt sambærilegt hótel hér sé ódýrara. Staðan er að það er ódýrara að fara með hópinn til útlanda með sama flugfélagi.

Við höfum verið í viðræðum um að halda 4-500 manna ráðstefnu í vor en hún er að detta upp fyrir því það fást ekki svör frá flugfélaginu, annars vegar um verð, hins vegar hvort yfir höfuð sé hægt að sinna farþegum. Það er ekki sanngjarnt að við séum ekki samkeppnishæf.“

Engin samkeppni fyrr en bætt verður úr í Reykjavík

Fyrir tveimur árum var komið á Loftbrúnni, niðurgreiðslum úr ríkissjóði fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Sú niðurgreiðsla er hins vegar ekki í boði fyrir þá sem koma að. „Mér fannst sú leið ekki gallalaus því ég óttaðist að tilkoma hennar myndi hækka fargjöldin. Það gerðist um leið og byrjað var að ræða um hana.

Þar sem ég þekki til svona niðurgreiðslu erlendis er samkeppni á leiðunum. Þar sem einn er um leiðina þá hækkar sá aðili verðið því hann getur það. Meðal eftirspurnin er mikil er engin ástæða til að lækka verðið. Við þyrftum flugfélag í samkeppni við Icelandair en það gerist ekki fyrr en ný flugstöð verður byggð í Reykjavík því það er hvergi pláss fyrir nýtt félag þar.“

Stjórnendur Icelandair hafa lýst því að þeir telji aukna möguleika felast í að selja ferðafólki flug beint áfram úr Keflavík út á land og hafa boðað flug þaðan til Akureyrar á næsta ári. Þegar eru merki um aukna ásókn erlendra ferðamanna í innanlandsflugið. Þessir möguleikar voru ræddir í morgun.

„Fólkið frá Icelandair benti á að af þeim flugfarþegum sem bóka erlendis frá á þessa þrjá áfangastaði innanlands: Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði, fari áberandi fæstir til Egilsstaða. Það kemur mér ekki á óvart og ég vil meina að á því séu eðlilegar skýringar því þetta eru mismunandi áfangastaðir. Á fyrrnefndu stöðunum heimsækir fólk meira bæina sjálfa meðan Egilsstaðir eru víðfeðmari áfangastaður þar sem fólk kemur til að skoða staði í nágrenninu. Því þarf það líka bíl þar og velur oft að keyra þangað og skoða staði á leiðinni. Þess vegna verður flugfélagið að markaðssetja Egilsstaði öðruvísi en hina.“

Of lítill sveigjanleiki

Eins og margir aðrir Austfirðingar hefur Þráinn reynt á eigin skinni hvernig það er þegar flug raskast. „Það sem hefur verið viðfarandi, ekki bara í sumar heldur líka meðan Flugfélag Íslands og síðar Air Iceland Connect var til staðar, er of lítill sveigjanleiki.

Ég hef lent í að fá SMS um seinkunn kvöldvélarinnar þegar ég geng inn í flugstöðina í Reykjavík. Á sama tíma er kaffivélin fyrir utan eftir að fara í loftið með tóm sæti. Ég spurði hvort ég gæti farið með en það kostaði mig 9.000 krónur aukalega. Samt var vélin að fara í loftið á mínum tíma.

Síðasta sunnudag var ég að koma að sunnan og var mættur eins og ég átti að gera klukkan 12:30 þegar flugið er 13:15. Þá var enginn í flugstöðinni, aðeins orðsending um að fluginu væri frestað um klukkutíma. Sama hvernig ég leitaði þá fann ég engan fyrr en ég rakst á síma sem gaf mér samband við þjónustufulltrúa sem fór þá að tala um tölvupóst sem ég átti að fá. Hann fór á annan aðila sem hélt utan um flugið. Ég fékk hins vegar póst þegar ég var kominn heim beint til mín um hvernig mér hefði þótt þjónustan.

Það er þessi vandræðagangur á öllu sem maður heyrir fólk tala um. Ég gæti ekki látið svona þjónustu spyrjast út um minn rekstur en það skiptir ekki máli fyrir þann sem er einn á markaðinum.“

Hóflegar væntingar um úrbætur

Á fundinum í morgun var rætt um aukna upplýsingagjöf til farþega og útskýringar til farþega á orsökunum seinkana. „Við þurfum engin knússkilaboð, bara réttar upplýsingar á réttum tíma,“ segir Þráinn um þær fyrirætlanir.

Hann segist hóflega bjartsýnn um úrbætur eftir fundinn í morgun. „Ég veit ekki hvernig á að gera það. Það vantar fólk og flugvélar, á að bæta við vélum? Ég held ég hafi of oft hlustað á loforð um að þetta eða hitt verði lagað þannig ég veit ekki hvað verður. Það verður bara að koma í ljós.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.