Ódýrasta grunnskólaþjónustan í Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2022 09:24 • Uppfært 16. ágú 2022 09:25
Gjöld fyrir grunnskólaþjónustu eru lægst í Fjarðabyggð, samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ meðal 20 stærstu sveitarfélaga landsins. Miklu munar þar um að hætt hefur verið að rukka fyrir skólamáltíðir.
Heildargjöld fyrir grunnskólaþjónustu í Fjarðabyggð eru 19.782 krónur á mánuði. Síðdegishressing kostar 3.591 krónur en skóladagvistum 16.191 krónur. Dýrust er þjónustan á Seltjarnarnesi, 45.843 krónur eða 11.781 fyrir skólamat, 4.977 fyrir hressinguna og 29.085 fyrir dagvistun.
Gjöldin í Múlaþing eru einnig í ódýrari kantinum, 31.704 krónur eða 10.248 fyrir mat og 21.456 fyrir dagvistunina. Hressingin er þar innifalin í dagvistuninni. Í tilfelli Múlaþings eru tekin gjöld fyrir skólana á Egilsstöðum og Fellabæ.
Sé litið til forgangshópa eru gjöldin lægst hjá Suðurnesjabæ eða 18.358 krónur. Sveitarfélagið var næst lægst yfir heildina en bæði er maturinn þar frekar ódýr sem og dagvistunin en hún lækkar enn frekar hjá forgangshópum. Fjarðabyggð er þar næst lægst með óbreytt gjald. Múlaþing er heldur ekki með afslátt fyrir forgangshópa sem þýðir að sveitarfélagið er í hærri kantinum í heildina.
Mesta lækkun gjalda milli áranna 2021 og 2022 er í Fjarðabyggð, 12%. Byggir hún á skólamáltíðunum sem gerðar eru gjaldfrjálsar. Hressingin og dagvistin hækka um 2,4%. Í Múlaþingi hækka gjöldin alls um 1% sem byggir á því að maturinn hækkar um 3,2% því dagvistin stendur í stað.
Sé litið til tveggja barna er Fjarðabyggð áfram ódýrust eða 35.516 krónur. Gjaldið þar fyrir þrjú börn er 47.203 krónur. Múlaþing innheimtir 58.202 fyrir tvö börn, sem færir það í dýrari helminginn og 84.609 krónur fyrir þrjú börn sem gerir það hið fimmta dýrasta.
ASÍ skoðar einnig breytingu á gjöldum milli leik- og grunnskóla. Þau lækka mest í Suðurnesjabæ, um 49% en næst mest í Fjarðabyggð, 41%. Sama röð er hjá forgangshópum en þar lækka gjöldin í Fjarðabyggð um 20%. Í Múlaþingi lækkar almenna gjaldið um 22% en hækkar um 2% hjá forgangshópum.
Um er að ræða hreinan verðsamanburð, ASÍ leggur ekkert mat á gæði þjónustunnar. Miðað er við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Miðað er við verð fyrir mataráskrift fyrir yngstu nemendur grunnskólanna. Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.
Múlaþing er meðal þeirra sveitarfélaga sem býður ávaxtametis- og mjólkuráskrift. Kosta ávextirnir, sem til boða eru í nestistímum, 1088 á mánuði í báðum skólum. Mjólkuráskrift er tilgreind 633 krónur á mánuði hjá Fellaskóla.