
Ökumaður mótorhjóls slasaður eftir árekstur við Eyvindará
Ökumaður mótorhjóls var fluttur á sjúkrahúsið í Neskaupstað eftir árekstur við bifreið við brúna yfir Eyvindará við Egilsstaði í gærkvöldi.Atvikið varð um kvöldmatarleytið í gær. Mótorhjólið og bifreiðin skullu saman þannig að ökumaður mótorhjólsins féll í götuna og hafnaði utan vegar.
Hann slasaðist en var með meðvitund. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi var hann fluttur til skoðunar og meðhöndlunar hjá lækni í Neskaupstað.
Útihús skemmdist töluvert í bruna við bæinn Staffell í Fellum eftir klukkan 18:00 í gær. Eldur kviknaði í gamalli bifreið sem verið var að gangsetja. Eldurinn barst yfir í útihús sem bíllinn stóð við. Slökkvistarf gekk vel en bíllinn er ónýtur og útihúsið talsvert skemmt eftir brunann.
Lögreglan hefur áhyggjur af hraðakstri í umdæminu. Síðastliðna tvo daga hafa 23 ökumenn verið kærðir fyrir að keyra of hratt. Sá sem hraðast ók mældist á 133 km/klst.