Skip to main content

Önnur bóma löndunarkrana álversins tekin niður

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2022 16:37Uppfært 04. nóv 2022 16:39

Löndunarkrani álvers Alcoa Fjarðaáls er á hálfum afköstum þar sem taka þurfti niður aðra bómu hans eftir að hún skemmdist seint í september. Skemmdir urðu einnig á hinni bómunni en hægt var að koma henni í nothæft ástand á staðnum.


Kraninn heldur uppi ryksöguröri sem fer ofan í lestir skipa og sogar upp þurrefni sem þar eru. Hann gegnir lykilhlutverki við löndun úr súrálsskipun sem flytja lykilhráefnið til vinnslunnar.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi álversins, segir fljótlega hafa komið í ljós að bóma B yrði áfram nothæf en léttir hafi verið að fá þá staðfestingu því annars hefði starfsemi álversins getað raskast verulega.

Bóma A var hins vegar hífð niður í síðustu viku. Vinna við það gekk vel en verkið var vandasamt því hún er bæði stór og þung. Unnið er að viðgerðaráætlun með Verkís, véltæknifyrirtækinu Héðni í Reykjavík og Vinnueftirlitinu. Því starfi miðar vel þótt ekki sé enn ljóst hversu langan tíma viðgerðin taki.

Greiningu á orsökum óhappsins sem skaddaði bómurnar er lokið. Svo virðist sem varnarbúnaður sem hafi átt að koma í veg fyrir atvik sem þetta ættu sér stað hafi ekki virkað. Alcoa og framleiðandi kranans vinna saman að endurbótum á stýrikerfi kranans til að koma í veg fyrir að atvik sem þetta endurtaki sig.

Ekki er ljóst hversu mikið tjónið er en það er mikið.