Skip to main content

Október í kaldara lagi austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2022 09:55Uppfært 04. nóv 2022 09:58

Októbermánuður var í kaldara lagi um land allt og Austurland þar engin undantekning samkvæmt úttekt Veðurstofu Íslands.

Hver einasta sjálfvirka veðurstöð stofnunarinnar á Austurlandi mældi meðalhitastig október vel undir meðallagi þó reyndar sveiflur á hitastigi væru drjúgar á stöku stöðum. Þannig var meðalhitastig að Teigarhorni 5,2 stig en hvergi á landinu mældist hærri hiti síðasta mánuðinn en þar þegar hitamælirinn náði 16 stigum einn daginn.

Af þéttbýlisstöðum urðu Egilsstaðir verst úti en þar var meðalhitastig októbermánaðar aðeins 3,2 stig. Á fjörðunum reyndist örlítið hlýrra eða 3,6 stig á Seyðisfirði, 4,2 stig á Eskifirði og 4,6 stig í Neskaupstað. Hæsti meðalhitinn mældist á Teigarhorni í Djúpavogi eða rúmlega 5,2 stig.

Norðausturland státar einnig af lægsta hitastigi októbermánaðar á landsvísu þegar mælirinn fór niður í -13,7 stig að Grímsstöðum á Fjöllum.

Úr Berufirði. Tvívegis í október féll snjór í byggð austanlands en hann tók þó upp að mestu aftur jafnharðan nema á fjöllum. Mynd GG