Orkuöryggi þarf áður en talað er um orkuskipti
„Ég held að við þurfum að fara að tala um orkuöryggi áður en við förum að tala um orkuskipti í sjávarútvegi,“ sagði Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjór Laxa Fiskeldis, á fjölmennum fundi um sjávarútvegsmál sem haldinn var á Eskifirði í vikunni.
Fundurinn sá var liður í fundaherferð Matvælaráðuneytisins undir yfirskriftinni Auðlindin okkar en nokkrir slíkir fundir hafa farið fram þar sem leitað er eftir tillögum frá almenningi hvernig bæta megi umgengni um þjóðarauðlindina og gera fiskveiðikerfið betra.
Fjölmargt bar á góma á fundinum en þar bar hæst umræður um orkuskipti, samþjöppun útgerða, fiskeldi og hið ævarandi vandamál brottkast.
Jens Garðar sté í pontu á fundinum og gagnrýndi tal um orkuskipti þegar enn væri að koma upp sú staða að engin orka væri fyrir hendi þegar þörf væri á.
„Það eru margar nefndir og margir fundnir haldnir um orkuskipti og mjög háfleyg markmið og yfirlýsingar um þessi blessuðu orkuskipti. Sjávarútvegurinn hefur sannarlega staðið sig vel og þar ekki síst vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðjanna. Nú bar svo við á þessari vertíð að það varð orkuskortur. Vestfirðir keyrðir áfram á díselolíu og loðnubræðslurnar líka. Það var einhver búinn að reikna út hvað ávinningur okkar af rafmagnsbílunum brann þannig upp á nokkrum dögum á loðnuvertíðinni miðað við hvað við brenndum mikið af olíu.,“
„Við þurfum að fara að bretta upp ermar og koma með alvöru orkuskiptishugmyndir, virkjanir og annað slíkt, til að mæta orkuörygginu til að byrja með og svo getum við farið að tala um alvöru orkuskipti. Atvinnulífið er komið út í orkuskipti. Menn eru að hugsa um eins og í okkar tilfelli landtengingar á prömmum og skipum, nýir orkugjafar og annað og hið opinbera þarf að vera í takti. Aðeins færri fundir og fleiri gjörðir.“