Skip to main content

Óska eftir meira fjármagni vegna fornleifarannsókna að Stöð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. okt 2022 14:20Uppfært 04. okt 2022 14:26

„Með þessu áframhaldi myndi ég halda að það tæki minnst tíu ár til viðbótar að ljúka þessum rannsóknum,“ segir Björgvin Valur Guðmundsson, formaður Félags áhugafólks um fornleifarannsóknir á Stöðvarfirði.

Félagið hefur farið þess á leit við Fjarðabyggð að auka við þann fjárhagsstuðning sem bæjarfélagið hefur lagt fornleifarannsóknum að Stöð til síðustu árin en sá styrkur hefur numið einni milljón króna árlega.

Björgvin segir að mjög hafa dregið úr fjárhagsstuðningi til rannsóknanna á þessum merka stað á síðustu árum hvort sem er frá hinu opinbera eða einkaaðilum. Heildarstyrkir til rannsókna nú í sumar námu aðeins 3,5 milljónum króna sem dugði aðeins í þriggja vikna rannsóknarvinnu. Þar af voru 2,5 milljónir úr fornminjasjóði og framlagið þaðan aldrei verið lægra.

„Þessar rannsóknir eru afar merkilegar en í Stöð er verið að fletta ofan af einu elsta húsi sem fundist hefur á Íslandi, húsi sem að öllum líkindum var reist skömmu eftir aldamótin 800 og þar með hefur sögu landnáms á Íslandi verið breytt. Það gerist einmitt hér í Fjarðabyggð og það er von okkar að sem flestir sjái hvílík menningarverðmæti þetta eru fyrir sveitarfélagið.“

Bæjarráð Fjarðabyggðar tók vel í erindi félagsins en hyggst styðja verkefnið áfram með svipuðum hætti og verið hefur. Engu að síður ætla menn að leggja lið við að leita uppi fleiri stuðningsaðila að verkefninu.

Hægt gengur að rannsaka fornleifar að Stöð í Stöðvarfirði enda margir stuðningsaðilar haldið aftur af styrkjum upp á síðkastið.