Skip to main content

Óþarfi að bæta Seyðisfirði inn í yfirstandandi tilraun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. okt 2022 09:41Uppfært 11. okt 2022 11:40

„Eftir að sveitarstjórn bárust undirskriftir 55% íbúa á Seyðisfirði átti það að vera baráttumál hennar að koma í veg fyrir laxeldi í firðinum. Andstaða íbúa voru næg rök í okkar huga til reyna að koma í veg fyrir þessi áform og óþarfi að bæta Seyðisfirði inn í yfirstandandi tilraun.“

Svo segir meðal annars í sérstakri bókun sem V-listi Vinstri grænna lagði fram á sveitarstjórnarfundi Múlaþings fyrir skömmu en tilefnið var bréf sem sveitarstjórn var sent af hálfu félagsins Vá - Félags um vernd fjarðar hvers baráttumál er að frelsa Seyðisfjörð frá fiskeldi í opnum kvíum eins og það er orðað.

Í bréfi Vá voru gerðar margháttaðar athugasemdir við aðkomu Múlaþings að nýju strandsvæðaskipulagi sem nú liggur hjá Skipulagsstofnun til meðferðar. Sérstaklega fann Vá að því hve lítið sveitarstjórnarfulltrúar höfðu sig frammi við vinnu fyrrnefnds strandsvæðaskipulags en engin formleg athugasemd vegna nýja skipulagsins barst frá Múlaþingi fyrir tilskilinn frest.

Allir sveitarstjórnarfulltrúar létu í sér heyra vegna málsins en Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, sagðist ekki í neinum vafa um að þær athugasemdir sem Skipulagsstofnun hefðu borist vegna strandsvæðaskipulagsins yrðu teknar alvarlega. Hún benti jafnframt á að umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefði tekið málið fyrir og meirihluti þar ekki gert athugasemdir við tillögurnar.

„Það er í raun ekki hlutverk sveitarfélagsins að taka afstöðu til annarra við strandsvæðaskipulagið því það er ekki í okkar höndum. Við erum ekki að gera þetta strandsvæðaskipulag þótt við tökum þátt í því verki með okkar fulltrúum og komum með athugasemdir við það. En ég tel víst að svæðisráðið muni taka öllum athugasemdum alvarlega. Ég geri ráð fyrir að Vá hafi sett inn sínar athugasemdir sem við fengum hér og af samtali mínu að dæma við fulltrúa í strandsvæðisskipulaginu og starfsmenn við vinnu þess þá er ég alveg þess viss að athugasemdir sem borist hafa vegna skipulagsins verði teknar alvarlega og verði unnið. Ég er því bjartsýn á að fram komi lokatillaga að strandsvæðisskipulagi Austfjarða sem geti verið okkur öllum til heilla.“

Frestur til að senda inn athugasemdir við tillögur að nýju strandsvæðaskipulagi rann út um miðjan síðasta mánuð og er nú farið yfir þær af hálfu Skipulagsstofnunar. Ekki liggur fyrir hvenær þeirri vinnu lýkur samkvæmt upplýsingum Austurfréttar.