Skip to main content

Rafmagnslaust á Jökuldal fram undir hádegi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2022 07:42Uppfært 10. okt 2022 07:43

Hæpið er að rafmagn komist á Jökuldal fyrr en um hádegi. Þar brotnuðu staurar í línu auk þess sem barist er við ísingu.


Rafmagn fór af Jökuldal um miðnætti þegar staurar brotnuðu milli Hvannár og Hofteigs, ekki fjærri þeim slóðum sem slíkt gerðist í storminum fyrir tveimur vikum. Í framhaldinu var allur dalurinn tekinn af meðan verið var að finna bilunina og tryggja línuna.

Verið er að koma fyrir nýjum staur og taka ísingu af línunni sem var farin að síga töluvert á nokkrum stöðum. Vonast er til að hægt sé að hleypa straumi á svæðið um hádegi en miðja nótt var hægt að setja rafmagn á ysta hluta Jökuldals.

Rarik gaf í gær út viðvörun vegna hættu á truflunum milli Berufjarðar og Öræfa þar sem veðurspá þótti lík þeirri sem var fyrri tveimur vikum þegar mikil selt settist á línur. Það virðist ekki hafa gerst nú og rafmagn því haldist inni.

Um klukkan ellefu í gær fór rafmagn af í Barkárdal í Vopnafirði. Það komst aftur á um klukkan þrjú í nótt.

Kröflulína tvö, gamla byggðalínan milli Kröflu og Fljótsdals, leysti út eftir hádegið í gær. Spennusetning var reynd í gærkvöldi en mistókst. Línan verður skoðuð í dag þegar veður leyfir. Ekki varð rafmagnsleysi hjá almennum notendum en einn stórnotandi missti afl.

Mynd úr safni