Rafmagnsleysið orðið nett pirrandi

Íbúar í sveitunum í kringum Djúpavog hafa glímt við miklar rafmagnstruflanir vegna seltu á línum síðan á mánudag. Rafmagnslaust var með öllu í Berufirði frá ellefu í gærkvöldi til ellefu í morgun. Truflanir hafa verið eftir það og viðbúið að þær haldi áfram.

„Rafmagnið fór endanlega af hér klukkan ellefu í gærkvöldi. Vatnsdælurnar ganga fyrir rafmagni þannig við urðum líka vatnslaus.

Við vorum með fullbókað í gistingu hjá okkur og þurftum að endurgreiða fólki í morgun. Við erum í sömu sporum og ferðamennirnir en þetta bitnar á okkur,“ segir Bergþóra Valgeirsdóttir á Lindarbrekku í Berufirði.

Rafmagnsleysið stafar af seltu sem settist á raflínur í Berufirði, Hamarsfirði, Álftafirði og reyndar víðar á Austurlandi í hvassviðrinu sem gekk yfir svæðið á sunnudag og mánudag. Truflanir hafa einnig verið í Fáskrúðsfirði af sömu orsökum í dag og í gær. Einkum þegar raki myndast í seltunni, svo sem eftir sólsetur, myndast yfirskot og þá getur slegið út. Bergþóra segir að maður hennar og tengdafaðir hafi verið á ferðinni inn í Hamarsfirði í fyrrakvöld og séð þá mikla blossa í loftinu sem reyndust koma frá línunum.

Verst að hafa engan fyrirvara

Starfsmenn Rarik hafa reynt að berjast við seltuna en til þess þurfa þeir að klifra upp í hvern staur og skafa hana af. Slíkt er erfitt og tímafrekt en í gærkvöldi var niðurstaðan sú að ekki yrði við neitt ráðið. Áfram hefur verið haldið í dag.

Bergþóra segir þó verst að íbúar hafi litlar upplýsingar fengið, til dæmis engin textaskilaboð, heldur hafi rafmagnið farið fyrirvaralaust. Þeir hefðu getað gert ráðstafanir hefði aðvörun borist en erfitt sé að sækja upplýsingar á netinu þegar sambandið sé stopult í rafmagnsleysinu. „Við fengum ekkert að vita,“ segir hún og bætir svo við í léttari tón: Maður hefði kannski getað látið bjóða sér í mat!“

Rafmagn komst á Berufjörð klukkan ellefu í morgun, fór aftur af um klukkan þrjú og var þá úti í hálftíma. Á vef Rarik kemur fram að búast megi við rafmagnstruflunum í Berufirði, Hamarsfirði og Álftafirði fram til klukkan 20 í kvöld. Þá sé viðbúið að einhverjar truflanir verði í nótt og næstu daga, eða þar til rignir það mikið að seltan skolist af.

Flöktið á rafmagninu er hins vegar farið að taka á íbúa í sveitunum kringum Djúpavog. „Það var orðið kalt í húsunum í morgun. Síðan er lífið allt í gegnum tölvuna. Ég kemst á netið í símanum en það hefur ekki komið inn heima. Það er nett pirrandi að geta ekki stólað á rafmagnið. Við getum huggað okkur við að kindurnar eru ekki komnar á hús, það hefði gert ástandið enn verra.“

Sveitungar hjálpast að eftir storminn

Íbúar í Berufirði fóru ekki varhluta af storminum á sunnudag. Talsvert tjón varð á Hvannabrekku í norðanverðum firðinum, þar fóru þakplötur af útihúsum og tré rifnuðu upp með rótum. Bergþóra segir nágranna hafa farið þangað til að aðstoða við viðgerðir eftir að lægði. „Sem betur fer eru allir tilbúnir að stökkva til og hjálpa þegar svona er.“

Bergþóra segir mun minna tjón hafa orðið á öðrum bæjum á svæðinu, á Lindarbrekku hafi eitt skjólhýsi fokið. Eins hafi talsverð hafi mikil selta sest á bíla og hús en ekki jafn mikil og virðist hafa gerst á Djúpavogi sjálfum. „Við þurftum að þrífa hér alla glugga. Þetta leit út eins og snjór.“

Ferðalangar sem áttu bókað í gistingu á Lindarbrekku komust ekki þangað þar sem öllum vegum var lokað. Aðrir urðu hins vegar innlyksa og komu í staðinn. „Við gátum troðið í öll rými. Þetta var fólk sem var á bílaplönum í kring og víðar. Afturrúða sprakk í einum bílnum þegar maðurinn minn fór til að aðstoða,“ segir Bergþóra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.