Skip to main content

Rafstrengir styrktir í kringum Djúpavog

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2022 11:46Uppfært 25. júl 2022 11:47

Verktakar á vegum Rarik vinna nú að lagningu jarðstrengs frá aðveitustöðinni við Teigarhorn út á Djúpavogi. Lagning þriggja fasa rafmagns í Hamarsfirði er að hefjast.


„Við erum að styrkja kerfið á Djúpavogi út af auknum umsvifum þar,“ segir Kári Valtingojer hjá rekstrarsviði Rarik á Austurlandi.

Verið er að leggja 12 kV streng frá Teigarhorni út á Djúpavog og þriggja fasa strengt fyrir bæina þrjá sem eru á leiðinni. Að auki er plægður niður stýriljósleiðari fyrir Rarik. „Við tökum þarna loftlínu niður um jörð auk þess sem styrkurinn út á Djúpavog þrefaldast. Þetta gengur ágætlega,“ segir Kári.

Lokahnykkur framkvæmdanna verður bygging rofastöðvar á Djúpavogi. Áætluð verklok strenglagningarinnar eru um miðjan september.

Í Hamarsfirði er að fara af stað lagning þriggja fasa strengs frá Djúpavogi inn í Bragðavelli. Bæir á leiðinni fá þriggja fasa rafmagn en eins vírs loftlína verður aflögð. Þeim framkvæmdum á einnig að ljúka í haust.

Þessar framkvæmdir fylgja í kjölfar þess að í fyrra var dreifilínur frá Teigarhorni að nýrri aðveitustöð í Breiðdal styrktar. Þær framkvæmdir gengu vel fyrir sig og voru nágrannar ánægðir með hversu vel verktökum gekk að ganga frá viðkvæmu landi. „Við höfum heyrt þetta hrós enda reynum við að velja verktaka sem ganga vel um,“ segir Kári að lokum.