Rauð viðvörun gefin út vegna foktjónaveðurs á Austfjörðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. sep 2022 20:21 • Uppfært 24. sep 2022 21:05
Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði á morgun þar sem von er á miklu hvassviðri. Vegagerðin er viðbúin að loka vegum á svæðinu. Von er á allt að 40 m/s hviðum í byggð og 60 m/s utan hennar.
„Þetta er mikill hvellur sem við verðum að taka alvarlega. Þess vegna höfum við hvatt fólk til að tryggja lausamuni og helst að vera ekki á ferðinni meðan veðrið er hvað verst sem er frá hádegi fram á kvöld,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.
Viðvaranir vegna stormsins hafa stigmagnast og seinni partinn í dag var gefin út rauð viðvörun fyrir Austfirði. Frá klukkan 9-12 í fyrramálið er í gildi appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði þar sem gert er ráð fyrir norðvestan 23-28 m/s og hvassara á stöku stað með hviðum yfir 40 m/s.
Rauða viðvörunin er í gildi frá klukkan 12-21. Á þeim tíma er spáð norðvestan roki eða ofsaveðri með vindhviðum yfir 45 m/s. Líkur eru taldar á foktjóni og grjótfoki en veðrið er sagt minna á mikið óveður sem gekk yfir svæðið í byrjun janúar 2021. Annað kvöld lægir lítillega, appelsínugul viðvörun tekur við fram til klukkan sex á mánudagsmorgunn.
„Það sem hefur breyst frá fyrri spám er að úrkoman á fjörðunum virðist verða minni en vindurinn er óvenju mikill, allt upp í 60 m/s í hviðum. Versta veðrið á landinu verður frá Kirkjubæjarklaustri austur að Berufirði, jafnvel lengra. Í byggð svo sem á Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað gæti slegið upp í 40 m/s í hviðum.
Líklegt að vegum verði lokað
Kristján segir starfsfólk Vegagerðarinnar reiðubúið að loka vegum og líklegt er talið að svo verði. Búist er við lokunum frá Berufirði og suður um en einnig er fylgst sérstaklega með Fagradal.
Á Austurlandi tók að hvessa duglega undir kvöldmat nú í kvöld en gul viðvörun gekk í gildi klukkan 19 og stendur fram til 10 í fyrramálið. Á þeim tíma er spáð suðvestan 15-23 m/s og hviðum víða yfir 30 m/s. Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan tíu og gildir til þrjú aðra nótt. Á þeim tíma er líkur á norðvestan 20-25 m/s með slyddu eða snjókomu.
Vindurinn er hættulegur fyrir stærri farartæki auk þess sem á morgun eru líkur á að snjókoma loki fjallvegum. Vegagerðin fylgist einkum með ástandinu á Möðrudalsöræfum.
Allt reynt til að ná til fólks á svæðinu
Mikið af ferðafólki er enn á svæðinu og segir Kristján Ólafur að í dag hafi verið reynt að koma skilaboðum til bæði íbúa og gesta um hvað sé í vændum. „Við höfum hvatt bílaleigur og gististaði til að segja gestum sínum frá. Við reynum allt til að koma upplýsingunum áleiðis til fólks. Við erum meðvituð um að hér er margt fólk sem ekki er vant þessum aðstæðum og þess vegna er Vegagerðin í startholunum með lokanir þannig ekki verði vandamál með ökumenn sem bæði eru óvanir að aka í svona aðstæðum og ekki á bílum sem búnir eru í þær,“ segir Kristján Ólafur.
Björgunarsveitir, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar eru í viðbragðsstöðu vegna óveðursins. Fundað verður bæði á landsvísu og síðan sérstaklega eystra um stöðuna undir hádegi á morgun. Búist er við að tilkynning verði gefin út eftir það. Þær hafa verið birtar á Facebook-síðu lögreglunnar á Austurlandi. Lögreglan hvetur alla til að fylgjast vel með veðurspá og fylgja þeim leiðbeiningum sem þar eru gefnar.