Skip to main content

Rekstrarbreytingar vegna skíðasvæðisins í Stafdal gengið vel

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. nóv 2022 11:18Uppfært 28. nóv 2022 11:23

„Það verða litlar sem engar breytingar fyrir hinn almenna skíðara, stefnan sett á að vera með svipaða opnun og verið hefur og kemur SKÍS auðvitað að allri ákvarðanatöku,“ segir Bylgja Borgþórsdóttir, íþrótta- og æskulýðsstjóri Múlaþings.

Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarformi hins vinsæla skíðasvæðis í Stafdal fyrir ofan Seyðisfjörð. Svæðið, sem frá upphafi hefur meira og minna verið rekið í sjálfboðavinnu foreldra og áhugasamra í skíðafélagi staðarins, er nú komið á forræði sveitarfélagsins Múlaþings.

Búið er að ráða Ashley Milne sem forstöðuaðila skíðasvæðisins en hann hefur mikla reynslu af störfum á skíðasvæðum hér og þar í heiminum. Þá hefur hann sinnt skíðakennslu í Stafdal undanfarna tvo vetur og þekkir því vel til stöðu mála.

Hann hóf störf strax í október síðastliðnum við að gera svæðið klárt fyrir skíðavertíðina en nú er loks komin snjór á fjöll aftur hér austanlands eftir langvarandi rigningar síðustu vikur.

Bylgja segir að afar vel hafi gengið af hálfu Múlaþings að koma að rekstrinum en Skíðafélag Stafdals (SKÍS) mun áfram vera í góðu samstarfi inn í framtíðina.