Skip to main content

Rekstur skíðasvæðisins í Stafdal í uppnámi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. ágú 2022 10:34Uppfært 17. ágú 2022 10:36

„Skíðafélagið hefur rekið þennan stað til fjölda ára með þrotlausri vinnu sjálfboðaliða að stærsta leyti og það einfaldlega gengur ekki lengur,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, fyrrum formaður Skíðafélagsins í Stafdal.

Félagið, sem séð hefur um rekstur þessa vinsæla útivistarsvæðis um árabil hyggst ekki halda þeim rekstri áfram næsta veturinn og hefur samningi um reksturinn þegar verið sagt upp. Er nú til skoðunar hjá Múlaþingi að bjóða út reksturinn þrátt fyrir að yfirferð á rekstri svipaðra skíðasvæði annars staðar sýni glögglega að útboð sé varla fýsilegur kostur.

Agnes, sem nýverið hætti sem formaður, segir að sveitarfélaginu hafi verið tilkynnt um þetta strax síðasta vetur en fyrir utan mikla ólaunaða vinnu margra félagsmanna á svæðinu þá sé reksturinn dýr og í mörg horn að líta í ofanlag við hefðbundna vinnu hjá félagsmönnum. Slíkt einfaldlega gangi ekki upp lengur.

„Þarna þarf að vera með rekstrarstjóra allan ársins hring. Okkur tókst ekki að ráða slíkan aðila í vetur enda segir sig sjálft að það ræður sig enginn toppmaður í slíkt í sex mánuði í senn. Þarna þarf að vera heilsárstaða enda hafa umsvifin aukist jafnt og þétt og ekki hvað síst varðandi stóraukna ferðaþjónustu. Í grunninn er skíðafélagið bara hópur af foreldrum sem hafa áhuga að leyfa börnum sínum að komast á skíði að vetrarlagi. Allir í fullri vinnu fyrir utan þetta áhugamál og það eru bara takmörk fyrir hvað við getum gefið af okkur.“

Múlaþing er nú að skoða hvernig best sé að leysa stöðuna. Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins hyggst ræða við aðstandendur skíðafélagsins og fara ofan í hvernig best verði staðið að rekstrinum í Stafdal næsta vetur samhliða því sem rekstrarútboð er til skoðunar.

Rekstur smærri skíðasvæða á landsvísu ávallt verið erfiður og vart á færi foreldrasamtaka að halda slíkri starfsemi gangandi ár eftir ár. Almennt ánægja hefur þó verið með aðstöðuna í Stafdal síðustu árin.