Ríflega 50 dýr eftir af sumarveiðinni

Ekki náðist að veiða 55 hreindýr af þeim sem heimilt var að veiða í sumar. Meirihluti þeirra dýra sem ekki náðist var úthlutað á svæði 2.

Síðasti dagur hreindýraveiða þetta sumarið var í fyrradag og vika er síðan hætt var að veiða tarfa. Alls veiddust 920 dýr af þeim 1021 dýra kvóta sem gefinn var út fyrir árið.

Rétt er þó að hafa í huga að 46 kýr á svæðum 8 og 9, sem tilheyra Sveitarfélaginu Hornafirði, er aðeins heimilt að veiða í nóvember sem þýðir að 55 dýr ganga af sumarkvótanum.

Á svæðum 1, 3, 4 og 9 veiddust öll þau dýr sem heimilt var að veiða í sumar. Á svæðum 8 og 5 vantar einn tarfa á hvoru svæði en á svæði 6 eina kýr. Á svæði sjö vantar 1 kýr og 3 tarfa.

Á svæði 2, sem til margra ára hefur verið helsta veiðisvæðið veiddust 122 dýr af þeim 170 sem heimilt var að veiða eða rúm 70% af útgefnum kvóta. Þar vantar því 48 dýr upp á veiðina.

Það segir ekki alla söguna. Eins og Austurfrétt hefur greint frá hafa bæði veiðimenn og líffræðingar áhyggjur af því að hreindýrin séu horfin af Fljótsdalsheiði, sem í áratugi hefur verið þeirra helstu sumarlendur.

Vegna þessa var um miðjan ágúst gripið til aðgerða sem annars vegar voru að gefa veiðimönnum, sem úthlutað hafði verið leyfi á svæði 2, kost á að skila inn leyfunum og fá þau endurgreidd að fullu. Samkvæmt frétt á vef Umhverfisstofnunar frá í síðustu viku höfðu um 50 manns nýtt þann möguleika, sem skýrir að miklu leyti þau dýr sem ekki veiddust á svæðinu.

Hins vegar var heimilt að veiða stóran hluta leyfanna á öðrum veiðisvæðum. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun voru gefin leyfi fyrir að veiða um 50 dýr af svæði 2 annars staðar. Endanleg tala liggur ekki fyrir en flest leyfanna fluttust yfir á svæði 1 og síðan svæði 6.

Eftir stendur þó að um 70 af þeim 170 dýrum eða rúm 40% sem heimilt var að veiða á svæði 2 virðast hafa verið felld þar. Eftir að reglunum var breytt um miðjan ágúst var nánast hætt að veiða á svæðinu. Í frétt Umhverfisstofnunar segir að rannsaka þurfi betur hvað valdi fækkun dýra á svæði 2 síðustu ár og endurskoða úthlutun veiðikvóta á svæðinu með það í huga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.