Rúmar fjórar milljónir austur í nýsköpunarstyrki
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. júl 2022 10:35 • Uppfært 15. júl 2022 10:37
Tvö austfirsk verkefni fengu samanlagt 4,35 milljónir króna þegar úthlutað var úr Lóu, nýsköpunarsjóði fyrir verkefni á landsbyggðinni.
Yggdrasill Carbon fær 2,5 milljónir til að búa til alþjóðlegar, vottaðar kolefniseiningar í gegnum sjálfbær loftslagsverkefni með nýskógrækt og endurheimt landgæða. Vottunin á að stuðla að gagnsærri kolefnisbindingu sem er mikilvæg til að tryggja raunverulega aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Verkefnin fara í gegnum tvo alþjóðlega vottunarstaðla sem eiga að tryggja gæði.
Blábjörg á Borgarfirði frá 1,85 milljónir til að þróa vörur úr þara til notkunar og verðmætasköpunar innan fyrirtækisins og sölu á markaði. Verkefnið skilar vörum fyrir framleiðslu á sterku áfengi, kryddi fyrir eldhús og matreiðslu og heilsuvörum fyrir líkama- og vellíðunarmeðferðir.
Alls bárust 100 umsóknir um styrki, þar af tólf frá Austurlandi. Tæpum 100 milljónum var í heildina úthlutað til 21 verkefnis.
Hlutverk Lóu er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Auglýst var eftir styrkjum í vor og að loknum umsóknarfresti fór matshópur fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um veitingu styrkja.