Skip to main content

Samið um aukna þjónustu við þolendur ofbeldis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. sep 2022 16:47Uppfært 15. sep 2022 16:51

Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð hafa skrifað undir samning við Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, um reglubundna þjónustu við þolendur ofbeldis á Austurlandi.


Skrifað var formlega undir samninginn í gær en ráðgjafar frá Aflinu hafa komið austur undanfarið ár og veitt viðtöl. Áður hafa Stígamót, ráðgjafar- og fræðslumiðstöð gegn kynferðisofbeldi, veitt þjónustu eystra en þar er farið að vísa á Aflið eystra.

Þjónustan sem Aflið veitir er hins vegar á breiðari grunni. „Aflið er ekki bara fyrir þolendur kynferðisofbeldis heldur leitar til dæmis líka til okkar fólk sem orðið hefur fyrir einelti í æsku og slíku. Eins hittum við aðstandendur,“ útskýrir Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Aflinu.

Aflið hefur bækistöðvar sínar á Akureyri og hefur að undanförnu verið að víkka út þjónustu sína á Norður- og Austurlandi. Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, segir það styrkja þjónustuna að veita hana úr nærumhverfinu.

„Félagsþjónustur beggja sveitarfélaga hafa fundið þörfina og hve gott er að geta vísað fólki í viðtöl hjá Aflinu. Okkur fannst mjög þarft að skjóta fleiri stoðum undir úrræði hér á Austurlandi, einkum þau sem sprottin eru frá landsbyggðinni.“

Samningurinn kveður á að sveitarfélögin greiði ákveðna upphæð árlega fyrir þjónustu Aflsins. Markmið samtakanna er að auglýsa eftir ráðgjafa sem staðsettur er á Austurlandi sem veitt getur þjónustuna. „Ráðgjafar Aflsins eru í verktöku og við höfum svipað fyrirkomulag í huga hér, ráðgjafa undir okkar handleiðslu. Fastur ráðgjafi hér myndi bæta þjónustuna til muna,“ segir Sigurbjörg.

Samningurinn felur líka í sér að samtökin eru reiðubúin að veita fræðslu svo sem á vinnustöðum og í skólum. Þar sem Vopnafjarðarhreppur og Fljótsdalshreppur eru með samning við félagsþjónustu Múlaþings er þjónusta Aflsins í boði fyrir alla Austfirðinga.

Sveitarfélögin munu leggja til húsnæði þar sem ráðgjafar hitta þá sem koma í viðtöl. Slíkt getur verið vandmeðfarið, skömm þolenda getur orðið til þess að erfitt sé að koma í hús þar sem annað fólk sér þá, til dæmis bæjarskrifstofur.

Til þessa hafa viðtölin annars vegar verið á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar á Reyðarfirði, hins vegar Samfélagssmiðjunni á Egilsstöðum. Sigurbjörg bendir á móti á að fólk eigi ýmis erindi á bæjarskrifstofur meðan erindið sé yfirleitt aðeins eitt þegar það komi inn á skrifstofur samtakanna á Akureyri. Þá hafi Austfirðingar verið viljugir til að fara milli byggðakjarna þyki húsnæðið á öðrum staðnum óþægilegt.

Ekki er enn kominn fastur viðtalstími heldur er óskað eftir þjónustu í gegnum síma eða aðrar samskiptaleiðir Aflsins, sem gefnar eru upp á vef samtakanna. Í kjölfarið er bókaður hentugur tími. Ráðgjafar Aflsins hafa komið austur á 2-3 vikna fresti, en milli tíma hefur meðal annars verið notast við fjarviðtöl. Þjónustan er notendum að kostnaðarlausu.

Frá undirritun samningsins í gær, frá vinstri: Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Aflinu, Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri Múlaþing og Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings.