Skip to main content

Samþykkt að rampa upp Múlaþing

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. okt 2022 10:39Uppfært 04. okt 2022 10:47

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu Römpum upp Ísland en það verkefni gerir ráð fyrir stórátaki á landsvísu í aðgengismálum fyrir fatlaða.

Þetta var samþykkt samhljóða í vikunni af hálfu nefndarmanna og þar tiltekið að ráð eigi að gera fyrir því í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þá skal í framhaldinu vinna málið áfram með samráðshópi um málefni fatlaðs fólks og skal sá hópur auglýsa eftir áhugasömum aðilum sem vilja taka þátt og tilnefna staði sem uppfylla skilyrði til þátttöku.

Hvatamaður að Römpum upp Ísland er Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno en hann notast sjálfur við hjólastól og þekkir á eigin skinni hversu aðgengi að fyrirtækjum og verslunum mörgum í landinu er erfitt. Því sé mikilvægt að fjölga römpum þar sem því verður komið við en oft þarf ekki meira til en að leysa aðgengi yfir eina tröppu eða háan þröskuld svo fatlaðir komust um.