Skip to main content

Seinkun á skólahaldi í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. ágú 2022 13:39Uppfært 19. ágú 2022 13:46

„Við urðum því miður að seinka skólaopnun í Nesskóla um tvo daga þar sem ekki tókst að ljúka ákveðnum framkvæmdum þar á réttum tíma,“ segir Þóroddur Helgason, fræðslustjóri Fjarðabyggðar.

Skólahald er aftur að hefjast á nýjan leik í leik-, grunn- og tónlistarskólum í sveitarfélaginu og segir Þóroddur að vel hafi gengið að manna fyrir veturinn. Það vanti einn starfsmann í frístund þegar þetta er skrifað og eftir á að fylla fimm stöður í leikskólum enn sem komið er. Þóroddur segir þó að viðtöl hafi verið vegna þessara starfa í vikunni og vonir standi til að það náist að ráða í flestar eða allar á næstu dögum.

Aðspurður um Tónlistarskólann í Neskaupstað þar sem mygla fannst í húsnæði skólans seint í vetur segir Þóroddur aðeins dagaspursmál áður en verkfræðistofan EFLA kynnir nýjar niðurstöður úr rannsóknum í skólanum.

„Við bíðum þeirra niðurstaða því við viljum ekki senda nemendur þangað inn nema tryggt sé að þar sé búið að koma í veg fyrir og hreinsa burt alla hugsanlega myglu. Við erum að vonast til að kennsla geti hafist þar strax um miðjan september ef skýrsla EFLU er jákvæð. Skólastjórinn var búinn að senda foreldrum bréf vegna stöðunnar og láta vita af hugsanlegri seinkun og sýndu foreldrar því undantekningarlítið skilning. Við erum einnig með varaplan ef í ljós kemur að ekki er búið að koma fyrir vandamálið. Þá erum við með annað húsnæði í sigtinu og munum taka það undir starfsemina ef á þarf að halda.“