Séra Bryndís Böðvarsdóttir sett inn í embætti

Séra Bryndís Böðvarsdóttir var á sunnudag sett inn í starf prests í Austfjarðaprestakalli við messu í Norðfjarðarkirkju.

Séra Bryndís var skipuð í embættið í sumar að undangenginni auglýsingu.

Það var prófastur Austurlandsprófastsdæmis, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, sem setti sr. Bryndísi í embætti. Allir prestar prestakallsins þjónustu fyrir altari en Bryndís predikaði. Hún klæddist við athöfnina grænleitum hökli eftir kirkjulistakonuna Sigrúnu Jónsdóttur sem gefinn var kirkunni.

Sameiginlegur kór Eskifjarðar- og Norðfjarðarkirkju söng við orgelleik Daníels Arasonar en Steindór Runiberg Haraldsson kirkjuþingsmaður las ritningalestur.

Vel var mætt til kirkju en að athöfn lokinni bauð sóknarnefnd Norðfjarðarsóknar til kaffisamsætis í safnaðarheimilinu.

Austfjarðaprestakall varð til við sameiningu Norðfjarðarprestakalls, Eskifjarðarprestakalls, Fáskrúðsfjarðarprestakalls, Heydalaprestakalls og Djúpavogsprestakalls árið 2019. Því þjóna nú fjórir prestar. Auk sr. Bryndísar eru það sóknarpresturinn sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sr. Alfreð Örn Finnsson og sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson.

Séra Bryndís, til vinstri í fremri röð, ásamt öðrum prestum prestakallsins og prófasti. Mynd: Svanhvít Aradóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.