Sérstök óbyggðanefnd tekur til meðferðar mál á Fljótsdalsheiði

Sérstök óbyggðanefnd hefur ákveðið að taka til meðferðar tvö mál er varða mörk eignarlands ríkisins við kirkjujörðina Valþjófsstað annars vegar, hins vegar ríkisjörðina Skriðuklaustur á Fljótsdalsheiði. Áður var úrskurðað um landamerki svæðanna með Hæstaréttardómum. Óbyggðanefnd gerði á þeim tíma athugasemdir við kröfugerðir ríkisins á svæðunum.

Landssvæðinu tvö eru meðan sautján svæða sem sérstök óbyggðanefnd hefur nú ákveðið að taka til meðferðar. Hin svæðin 15 eru utan Austurlands en dreifast vítt um landið.

Svæðin sem um ræðir eystra eru annars vegar við vesturmörk Skriðuklausturs. Í úrskurði óbyggðanefndar frá árinu 2005 segir að það sé mat nefndarinnar að afréttarsvæðin Rani og Undir Fellum hafi aðra eignarréttarlega stöðu en eignarland. Þar sé eftir að leysa úr mörkum eignarlands og þjóðlendu. Lýsingin fyrir Valþjófsstað er svipuð. Er þar um að ræða afréttarlöndin tvö auk Vesturöræfa og segir að mörkin séu óljós.

Nefndin hefur komið minnisblaði yfir athugasemdir sínar við svæðin sautján til fjármála- og efnahagsráðherra sem, fyrir hönd íslenska ríkisins, hefur frest fram til 14. nóvember til að lýsa kröfum um þjóðlendurnar.

Svæði sem voru utan krafna á sínum tíma

Nefndin sendi ráðherra jafnframt bréf þar sem farið er yfir aðdraganda málanna nú. Hún rekur hann allt aftur til ársins 1998 þegar sett voru lög til að eyða óvissu um eignarrétt lands og óbyggðanefnd í kjölfarið komið á laggirnar. Landinu var skipt upp í 17 landssvæði og á næstu 20 árum var úrskurðað í 66 málum á 14 svæðum sem ná yfir 91% landsins.

Árið 2020 var lögunum breytt þannig að heimilað var að taka til meðferðar svæði sem áður hafði verið úrskurðað úr, að því gefnu að nefndin hefði á sínum tíma gert athugasemdir við kröfugerð ríkisins, til dæmis með fyrirvara um gögn sem ekki væru komin fram. Eins og fram kemur í málunum tveimur eystra var á sínum tíma bent á að tiltekin svæði sem væru utan krafna ríkisins gætu einnig verið utan eignarlanda. Þau svæði voru ekki rannsökuð frekar þar sem ríkið gerði ekki kröfur í þau.

Í útskýringum sem Austurfrétt hefur fengið frá óbyggðanefnd er ekki verið að taka mál upp aftur heldur teljast málin nú vera ný, þótt málsmeðferðin tengist eldri málum. Jafnframt er ríkinu óheimilt að láta nýjar kröfur ná inn á land sem áður hefur sætt kröfum.

Við breytingu laganna fyrir tveimur árum benti óbyggðanefnd á flest svæðanna sem nú eru gerðar kröfur um sem dæmi um svæði sem til greina kæmi að skoða nánar. Skömmu eftir að frumvarpið var samþykkt sendi nefndin frá sér samantekt þar sem hún lýsti skoðun sinni á 17 svæðum sem hún taldi rétt að ríkið skoðaði frekar.

Öll nefndin vanhæf

Lögmenn landeigenda gerðu athugasemdir við málsmeðferðina í snemma árs 2021 og fóru fram á að nefndin öll, ásamt starfsmönnum, viki sæti við meðferð málanna á þeim forsendum að hún hefði haft frumkvæði og aðkomu og lagasetningunni sem málsmeðferðin byggði á. Auk þess hefði allir aðalmenn setið sem nefndarmenn í málunum 17 sem athugasemdirnar fjölluðu um. Þá óskuðu lögmennirnir eftir um að málsmeðferð yrði frestað þar til úrskurðað væri um vanhæfið.

Haustið 2021 ákváðu starfsmenn og nefndin að víkja sæti og vísuðu í vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga þar sem segir að víkja beri sæti ef til staðar séu aðstæður sem fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni í efa með réttu. Að auki vék einn varamaður í málinu vegna tengsla.

Þeir tveir varamenn sem eftir stóðu báðust undan að taka sæti. Forsætisráðherra skipaði því sérstaka nefnd um málin í desember síðastliðnum. Hún tók til starfa á þessu ári og ákvað að byrja athugun sína á málinu frá grunni. Það sem af er þessu ári hefur nefndin skipst á bréfum við annars vegar lögmenn landeigenda, hins vegar ríkið. Niðurstaða hennar er þó sú hin sama og venjulegu óbyggðanefndarinnar, að leggja til við ríkið að taka til frekari skoðunar þessi sautján svæði.

Þegar ríkið hefur lýst kröfum sínum verður öðrum gefinn frestur til að lýsa kröfum á móti. Sá frestur er 3-6 mánuði. Síðan verða heildarkröfur kynntar. Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin og úrskurðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.