Skip to main content

Setja upp minnismerki við Æðarsteinsvita

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. sep 2022 14:45Uppfært 01. sep 2022 14:46

Þann 22. september næstkomandi verða 150 ár liðin frá mannskæðasta sjóslysi sem heimildir eru um við Djúpavog þar sem tíu fórust við Æðarstein. Þessa atburðar verður minnst eftir tíu daga þegar minnisvarði verður afhjúpaður þar.


Fólkið var um borð í bát á leið frá Teigarhorni út á Djúpavog að kvöldlagi í blíðskaparveðri. Um borð voru meðal annars fimm börn Níelsar Weywadt, verslunarstjóra.

Weywadt þessi var áhrifamikill í sögu Djúpavogs, stýrði verslun þar í 40 ár og lét byggja bæði Faktorshúsið og gamla bæinn á Teigarhorni.

Elsti sonur hans var sá eini um borð sem var syndur. Vasabók úr hans eigu fannst í flæðarmálinu eftir slysið, að mestu þurr. Talið er að hann hafi náð að synda í land en lagst aftur til sunds í von um að geta bjargað öðrum en ekki komist sjálfur til lands.

Báturinn fannst aldrei og aðeins hluti líkamsleifa þeirra sem fórust. Lík einnar dóttur hjónanna rak að landi eftir slysið en aðrar leifar sem fundust síðar var ekki hægt að bera kennsl á.

Áhugafólk frá Djúpavogi, með þá Kristján Ingimarsson og Reyni Arnórsson í broddi fylkingar, hafa að undanförnu haft frumkvæði að því að koma upp skildi til minningar um atburðinn. Sunnudaginn 11. september verður afhjúpaður minningarskjöldur og skúlptúr við Æðarsteinsvita.

Bæði einstaklingar og fyrirtæki á Djúpavogi hafa styrkt framtakið sem unnið hefur verið í samvinnu við ferðafélag og slysavarnadeild staðarins. Guðjón Sigurðsson frá Aski sem skar út skúlptúrinn.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að tilgangur verkefnisins sé að heiðra minningu fólksins, viðhalda menningararfinum, varðveita söguna og síðast en ekki síst að minna á mikilvægi öryggismála fyrir sjófarendur.

Afhjúpun verkanna verður klukkan 14:00 en þar á undan verður Ferðafélag Djúpavogs með fræðslugöngu frá Teigarhorni að Æðarsteinsvita, en vinsæl gönguleið er út að vitanum. Um leið verður þess minnst að 100 ár eru liðin síðan vitinn þar var reistur.