Skip to main content

Setja upp rottugildrur í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. okt 2022 11:41Uppfært 12. okt 2022 13:31

„Það var tilkynnt um dauða rottu nálægt hafnarsvæðinu í Neskaupstað og við tókum þá ákvörðun að fá meindýraeyði til að setja upp gildrur þar í kring svona til að vera bæði með belti og axlarbönd,“ segir Aron Leví Beck, skipulags- og umhverfisfulltrúi hjá Fjarðabyggð.

Líklegt er talið að rottan hafi komið úr erlendu skipi sem lagst hafi að bryggju við Síldarvinnsluna nýverið en hræið var sent til rannsóknar hjá Náttúrustofu Austurlands til að kyngreina hana og ganga úr skugga um hvort hún hafi verið kynþroska en það þarf dýrið vitaskuld að vera til að geta fjölgað sér. Þær niðurstöður liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Aron segir að það sé almennt þekkt vandamál að meindýr geti komist í land úr skipum sem sigla milli landa og slíkt hafi komið upp áður í höfnum austanlands. Hann segist sjálfur ekki hafa of miklar áhyggjur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

„Við töldum rétt að það það væri gott að grípa til aðgerða því það er betra en aðhafast ekkert. Í kjölfarið kem ég til með að heyra í þeim fyrirtækjum í Fjarðabyggð sem eru í hafnsækinni starfsemi varðandi að setja upp aðbúnað hjá sér til að verjast því að meindýr komist í land. Þetta var, skilst mér, alltaf gert hér áður fyrr en svo hefur eitthvað dregið úr því síðan.“