Fimmtán manna hópur flóttafólks á leið austur á Eiða
Fimmtán flóttamenn frá Úkraínu eru nú á leið austur á land með rútu en sá hópur mun koma sér fyrir í skólahúsnæði gamla Alþýðuskólans að Eiðum.
Þó þegar hafi tugir flóttafólks frá landinu komið sér fyrir hér austanlands er þetta fyrsti hópurinn sem kemur austur með fulltingi Vinnumálastofnunar, Fjölmenningarseturs og Múlaþings.
Búið er að undirbúa komuna lengi vel, bæði af hálfu Múlaþings og forsvarsmanna Eiða, og verður fólkinu boðin aðstoð strax og það hefur komið sér fyrir við að læra íslensku auk samfélagsfræðslu um íslenskt samfélag. Þá verður fólkinu og boðin aðstoð við að komast fljótt inn á vinnumarkaðinn hér austanlands og í boði verður akstursþjónusta til og frá Eiðum.
Kostnaður vegna þessa liggur ekki fyrir en sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, segir að þetta sé aðeins fyrsti hópurinn sem kemur austur. Ráð er gert fyrir að tekið verði á móti allt að 40 einstaklingum í heildina. Sveitarfélagið gerir ráð fyrir að ríkið muni að mestu leyti dekka þann kostnað sem til kemur vegna þessa.